Valborg Jónína Jónsdóttir fæddist 5. okóber 1926. Hún lést 7. júlí 2016. Útför Valborgar fór fram 13. júlí 2016.

Okkur langar í örfáum orðum að minnast Valborgar frænku sem var okkur systkinunum svo góð. Stutt var á milli heimila okkar og mikill samgangur. Valborg kom oft við á leiðinni heim úr Kaupfélaginu eftir að hafa náð í nauðsynjar fyrir heimilið eða úr vinnu. Það vakna einstaklega góðar og hlýjar tilfinningar að hugsa til heimsókna hennar, mikið var skrafað og hlegið í kringum hana.

Valborg var einstaklega jákvæð, með fallega framkomu sem og ásjóna hennar öll. Við vottum aðstandendunum okkar dýpstu samúð og megi minning um einstaka konu ylja okkur um ókomna tíð.

Ég veit ekki hvort þú hefur,

huga þinn við það fest.

Að fegursta gjöf sem þú gefur,

er gjöfin sem varla sést.

Ástúð í andartaki,

augað sem glaðlega hlær.

Hlýja í handartaki,

hjartað sem örar slær.

Allt sem þú hugsar í hljóði,

heiminum breytir til.

Gef þú úr sálarsjóði,

sakleysi, fegurð og yl.

(Úlfur Ragnarsson)

Ólína, Stefanía, Ingvar og Páll .

Þá hefur Valborg föðursystir mín lokið lífsgöngu sinni tæplega 90 ára gömul. Það er vart hægt að nefna Valborgu án þess að Haukur Ólafsson maður hennar sé nefndur um leið, svo samrýnd voru þau hjón, en Haukur lést fyrir fjórum árum, þá tæplega 96 ára.

Heimili þeirra var einstaklega smekklegt og snyrtilegt, þangað var gott að koma, þiggja kaffisopa, gott bakkelsi og ræða málin. Þau voru mikið fjölskyldufólk og vildu vita hvernig ættingjunum reiddi af. Eftir að heilsa þeirra fór versnandi og þauvoru komin á ellideildina við Fjórðungssjúkrahúsið fækkaði heimsóknum mínum til þeirra enda á ég ekki gott með að koma inn á slíkar stofnanir.

Það sem annað þeirra gerði tók hitt fullan þátt í hvort sem það var vinnan, pólitík, félagsstörf eða fjölskyldan. Haukur var sjómaður, skipstjóri og útgerðamaður, gerði út þrjár Goðaborgir NK 1, eftir að hann kom í land sá hann um síldarradíó Norðfjarðar sem rekið var á heimili þeirra, þar var unnið allan sólarhringinn ef á þurfti að halda, við þjónustu við síldarflotann og fyrirtækin í landi, það má segja að Haukur hafi verið í talstöðinni og símanum talandi við þá sem komu á staðinn allt í senn, en Valborg í móttökunni tilbúin með kaffi og kökur. Einni heimsókn til þeirra á þessum tíma, þegar mikið var að gera og hafði verið lengi, man ég sérstaklega eftir, talstöðin þagnaði ekki, ég fylgdist með Hauki um stund og hugsaði, hvernig getur hann þetta allt í einu og man þetta allt saman, til hvers ætli hann þurfi talstöð, þeir heyra örugglega í honum langt út á sjó? En Haukur var raddsterkur maður og gat alveg gleymt sér í hita leiksins. Þá kom frænka í dyragættina og leit glettin á hann, Haukur skildi merkið og lækkaði í sér, a.m.k. um stund. Síðar gerðist Haukur verslunarstjóri byggingar- og gjafavöruverslunar Kaupfélagsins Fram en frænka vann í bakaríi Kaupfélagsins.

Elsku Valborg og Haukur, hafið þökk fyrir samveruna og allt það góða sem þið sýnduð mér í gegnum tíðina.

Hlífar Þorsteinsson.