[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ef spurt er um fugla er ekki komið að tómum kofunum hjá Alex Mána Guðríðarsyni, 19 ára, frá Stokkseyri. Hann er á stöðugum þeytingi með ljósmyndavélina sína í fuglaleit og er fljótur að rjúka af stað ef hann fréttir af fugli sem hann hefur ekki séð...

Ef spurt er um fugla er ekki komið að tómum kofunum hjá Alex Mána Guðríðarsyni, 19 ára, frá Stokkseyri. Hann er á stöðugum þeytingi með ljósmyndavélina sína í fuglaleit og er fljótur að rjúka af stað ef hann fréttir af fugli sem hann hefur ekki séð áður. Um liðna helgi sá hann sinn 200. fugl á Íslandi og er sá yngsti sem náð hefur þeim áfanga. Fuglaflækingsnefnd hefur þegar fært séðan, téðan fugl til bókar.

Valgerður Þ. Jónsdóttir

vjon@mbl.is

Fuglaskoðurum landsins þótti alveg magnað um liðna helgi þegar einn úr þeirra röðum, Alex Máni Guðríðarson, 19 ára, setti Íslandsmet í fjölda séðra fuglategunda á Íslandi – eins og þeir segja á sínu fuglamáli. Íslandsmet að því leyti að hann er sá yngsti sem náð hefur þessum áfanga hér á landi og sló um leið met Gunnars Þórs Hallgrímssonar fuglafræðings, sem vantaði aðeins tíu daga í tvítugt þegar hann rauf 200 fugla múrinn árið 1999.

Eins og vera ber er fjöldi téðra fuglategunda færður til bókar hjá flækingsfuglanefnd, sem gengur úr skugga um að ekki séu brögð í tafli. Ljósmynd og greinargóð lýsing fuglaskoðarans eru sönnunargögn sem nefndin leggur til grundvallar.

Sem ástríðufullur fuglaskoðari er Alex Máni vel í sveit settur þar sem hann býr á Stokkseyri, því óvíða á landinu er meira fuglalíf.

„Áhugi minn á fuglum og fuglaskoðun vaknaði þegar ég var smástrákur að gefa fuglunum í garðinum heima á veturna. Síðan kynntist mamma stjúpa mínum, Hlyni Óskarssyni, vistfræðingi og miklum áhugamanni um fugla, í næsta húsi bjó og býr enn Jóhann Óli Hilmarsson fuglafræðingur og svo var afi minn heitinn, Geir Valgeirsson, einnig mjög áhugasamur um fugla. Allir áttu þeir þátt í að kynna mér fugla og glæða hjá mér áhugann, aukinheldur sem afi kom mér út í ljósmyndun, en við fórum oft saman að mynda fugla,“ segir Alex Máni, sem setti sér það markmið fyrir tveimur árum að sjá 200 fuglategundir áður en hann yrði tvítugur.

Alex Máni veit um fjóra fuglaskoðara sem hafa séð meira en 300 tegundir á Íslandi. „Flestir halda annars vegar Íslandslista og hins vegar heimslista,“ upplýsir hann og jafnframt að á sínum heimslista séu um 500 tegundir, enda skoði hann fugla hvar sem hann drepi niður fæti í heiminum.

Í essinu sínu í lægðunum

Á Íslandi eru um 80 varpfuglar og samkvæmt síðustu tölum hafa sést hér tæplega 400 fuglategundir, flestir flækingar frá Evrópu og Norður-Ameríku sem koma með haustlægðunum. „Við fuglaskoðarar erum í essinu okkar þegar spáð er miklum lægðum og leiðindaveðri og förum gjarnan daginn eftir að leita á álitlegustu stöðunum. Með lægð frá Ameríku koma fuglar aðallega að Reykjanesi og suðurströndinni, en að austurströndinni, til dæmis Höfn í Hornafirði og undir Eyjafjöll, með lægðum frá Evrópu.“

Alex Máni er með þetta alveg á hreinu, enda á stöðugum þeytingi í fuglaleit, sérstaklega ef hann fréttir af fugli sem hann hefur ekki séð áður. Eins og um daginn þegar þeir Jóhann Óli ruku af stað með ljósmyndagræjurnar og keyrðu að Mývatni og út í Búrfellshraun í leit að einum slíkum. „Þegar við fundum fuglinn ákváðum við að keyra aðeins lengra, gegnum Finnafjörð og um firðina þar um slóðir og svo austurströndina heim. Og auðvitað með augun opin fyrir sjaldséðum fuglum alla leiðina.“

Leyndarmál að gefnu tilefni

Spurður hvort hann hafi kannski séð fugl númer 200 í þessari ferð þeirra félaga, svarar hann neitandi. „Það er raunar leyndarmál hvar ég sá snæugluna, sem ég var svo heppinn að lenti akkúrat í 200. sæti á Íslandslistanum mínum,“ segir hann. Með því að halda fundarstaðnum leyndum segist hann vilja fyrirbyggja að óprúttnar skyttur mæti á svæðið. Enda þekki hann dæmi þess að þær fari þangað sem spyrst til sjaldséðra fugla, skjóti þá, monti sig svolítið af þeim í frystikistunni heima hjá sér áður þeir stoppi þá upp og selji. Athæfið fer að vonum mjög fyrir brjóstið á honum og öðrum fuglavinum. „Ég verð óskaplega pirraður þegar ég sé fólk drepa fugla, eins og til dæmis kríuna, sem hefur átt erfitt uppdráttar þar til alveg nýverið að hún er að ná sér á strik. Svo sér maður einhverja vitleysinga gera sér að leik að keyra á miklum hraða um varpstaðina og drepa ungana.“

Alex Máni gerir því skóna að hinum sömu þætti fengur að snæuglunni, sem er friðuð og afar sjaldgæf á Íslandi. „Rosalega flottur og töff fugl. Þegar ég hafði séð 199 fugla í vor stefndi ég að því að snæuglan yrði minn séði fugl númer 200. Miklu skemmtilegra heldur en að ræfilslegur flækingur vermdi svona merkilegt sæti,“ segir Alex Máni með fullri virðingu fyrir smáfuglunum.

Fuglaleiðsögn um friðland

Þótt snæuglan sé flott, nefnir hann lóminn sem sinn uppáhaldsfugl. „Lómurinn er sá fugl sem ég hef fylgst mest með og myndað. Hann er mjög tignarlegur og gaman að fylgjast með atferli hans, til dæmis þegar hann fæðir unga sína á fiskum sem eru nánast stærri en þeir sjálfir. Í fuglafriðlandinu hérna í Flóanum þar sem ég og fleiri á vegum Fuglaverndar höfum verið með fuglaleiðsögn í sumar er mikið um lóm. Hann er mjög gæfur og verpir þar við litlar tjarnir, dælur eins og við segjum á sunnlensku. Lómurinn er einkennisfugl friðlandsins en svo eru þarna óðinshani, spói, kjói, lóuþræll og fleiri og fleiri, sem gaman er að fylgjast með.“

Fuglaskoðarar landsins fylgjast grannt hverjir með öðrum og nýjustu fuglafréttum á netinu, t.d. á Birding Iceland, síðu sem hýst er á vef Háskóla Íslands, samnefndri Facebook-síðu, fuglar.is og víðar. „Við látum vita um sjaldgæfar tegundir og svo eltir hver annan í von um að sjá tiltekinn fugl,“ segir Alex Máni brosandi.

Af ferðum og flugi fölheiðar

Sjálfur brást hann skjótt við til að freista þess að berja fölheiði augum, en til fuglsins hafði spurst á Hornafirði í september 2012. „Við lögðum af stað að kvöldlagi og komum að Höfn á miðnætti, gistum þar og lögðum eldsnemma af stað að leita fuglsins og vorum svo heppnir að sjá þennan stóra ránfugl fljúga yfir veginn þar sem við keyrðum í sólarupprásinni,“ segir hann. Síðan mun ekki hafa spurst til fölheiðar á Íslandi. „Tilkomumikil sjón – og já, trúlega,“ svarar hann spurður um merkilegasta fuglinn og jafnframt þann skrýtnasta sem hann hefur séð um dagana.

Alex Máni vinnur sem flokksstjóri hjá sveitarfélaginu Árborg, en fer aftur í Fjölbrautaskóla Suðurlands í haust. Hann segist verja lunganum af frítíma sínum í fuglaskoðun, sérstaklega á sumrin þegar birtuskilyrðin eru góð og hægt að skoða fugla allan sólarhringinn, eins og hann geri reyndar stundum. „Annars reyni ég að skjótast eftir vinnu flesta daga og allar helgar. Stundum dreg ég vini mína með mér, en þeir eru misáhugasamir,“ segir hann.

200 klúbburinn

Fuglaskoðuninni fylgir heilmikið umstang og utanumhald. Alex Máni er með fjölda ljósmynda, sem hann hefur sjálfur tekið á ferðum sínum, ásamt skrám í tölvunni sinni með upplýsingum um alla séða fugla, hvar og hvenær hann sá þá og nánari lýsingar ef því er að skipta. Hann kann heiti þeirra utan að á þremur tungumálum; íslensku, ensku og latnesku. „Ef maður ætlar að hlaða niður skrám eða öppum með hljóðum fugla þá eru flest nöfnin á latínu. Svo spila ég öppin til að fá fuglana til að fljúga á hljóðið og þá get ég skoðað þá betur,“ útskýrir hann.

Margar fuglaskoðunarferðir eru að baki, sumar hálfgerðar fýluferðir og aðrar skemmtilegri en allar minnisstæðar að sögn Alex Mána, sem um helgina verður að vanda einhvers staðar við fuglaskoðun. Um miðjan ágúst er meiningin að vera yfir helgi í Vestmannaeyjum og merkja sæsvölur í Elliðaey á nóttunni. Svo ætlar hann ekki að láta undir höfuð leggjast að skrá sig í fámennan en góðmennan klúbb, 200 klúbbinn. Hann fullnægir inntökuskilyrðum.