Orgel Douglas Cleveland leikur blöndu af gamalli og nýrri orgeltónlist í hádeginu í dag og á sunnudaginn.
Orgel Douglas Cleveland leikur blöndu af gamalli og nýrri orgeltónlist í hádeginu í dag og á sunnudaginn.
Bandaríski organistinn Douglas Cleveland efnir til tónleika í Hallgrímskirkju í hádeginu í dag en þar mun hann leika á hið volduga Klais-orgel.

Bandaríski organistinn Douglas Cleveland efnir til tónleika í Hallgrímskirkju í hádeginu í dag en þar mun hann leika á hið volduga Klais-orgel. Þetta er í þriðja skiptið sem Cleveland kemur hingað til lands til þess að leika á orgelið og mun hann leika á tvennum tónleikum undir hatti Alþjóðlega orgelsumarsins nú um helgina. Cleveland kemur til með að leika blöndu af gamalli og nýrri orgeltónlist á hljómleikunum, sem spannar allt frá Bach og Marchand til bandarískra samtímatónskálda. Þannig gefst ekki aðeins tækifæri fyrir þennan tónlistarmann til að leyfa áheyrendum að njóta fjölhæfni sinnar heldur einnig til að sýna margar hliðar hljóðfærisins, eins og segir í tilkynningu.

Cleveland ólst upp í borginni Olympia í Washington og lærði við Eastman School of Music og Háskólana í Indiana og Oxford. Hann öðlaðist alþjóðlega viðurkenningu árið 1994 þegar hann hlaut fyrstu verðlaun American Guild of Organists fyrir unga orgelleikara og hefur síðan þá leikið í 49 ríkjum Bandaríkjanna ásamt frægustu kirkjum og tónleikasölum í Evrópu, Ástralíu, Singapúr og Japan. Síðari tónleikar Cleveland verða á sunnudaginn klukkan 17.