Isavia hyggst setja upp hávaðamæla til þess að mæla hljóðmengun frá flugumferð af Keflavíkurflugvelli.

Isavia hyggst setja upp hávaðamæla til þess að mæla hljóðmengun frá flugumferð af Keflavíkurflugvelli. Reykjanesbær hefur gert athugasemdir við aukna flugumferð yfir Njarðvík en rekja má þessa auknu flugumferð til endurbóta á norður-suður flugbraut flugvallarins og er því aukið álag á austur-vestur flugbrautinni.

Á vef Isavia segir að til að íbúar geti betur fylgst með hljóðmengun frá flugumferð hafi Isavia ákveðið að setja upp rauntímamæla sem mæla hljóðmengun frá flugumferð. Þegar rauntímamælarnir hafa verið settir upp verður hægt að fylgjast með mælingum þeirra á vef Isavia. Þangað til rauntímamælarnir verða settir upp hefur Isavia tekið á leigu hljóðmæli sem félagið mun nota til þess að fylgjast betur með hljóðmengun frá flugumferð og gera prófanir sem miða að því að minnka ónæði af völdum flugumferðar yfir byggð.

Stefnt er að því að þessum framkvæmdum ljúki í síðasta lagi í október og þá verður norður-suður brautin aftur tekin í notkun.