[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Golf Kristján Jónsson kris@mbl.is Hörður Geirsson, golfdómari úr Hafnarfirði, var á meðal dómara á Opna breska meistaramótinu í golfi á dögunum.

Golf

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Hörður Geirsson, golfdómari úr Hafnarfirði, var á meðal dómara á Opna breska meistaramótinu í golfi á dögunum. Opna breska eða The Open eins og Bretar kalla það gjarnan er eitt elsta íþróttamót heimsins, en það fór fyrst fram árið 1860. Til að setja það í samhengi má nefna að þegar heimsmeistarakeppnin í knattspyrnu var haldin í fyrsta skipti hafði Opna breska verið haldið í sjötíu ár. Morgunblaðið fékk að forvitnast um það hjá Herði hvernig var að komast inn fyrir kaðlana á þessum stórviðburði. Hörður sagði Bretana vera mjög skipulagða.

„Mótshaldið sjálft og öll umgjörð mótsins er gríðarlega umfangsmikil, en á móti kemur að þetta virtist ganga eins og vel smurð vél hjá mótshöldurum og dagskráin gekk að öllu leyti eftir áætlun. Í plöggum sem ég fékk var til dæmis gert ráð fyrir alls kyns hlutum sem ekki reyndi á. Sem dæmi má nefna að þaulskipulagt ferli var reiðubúið ef til umspils kæmi. Þá lá fyrir hvaða einstaklingar hefðu þá átt að sjá um hvað. Þegar síðasti ráshópur var að spila síðustu holuna voru menn á fullu að undirbúa umspil sem nánast engar líkur voru á að þyrfti til þess að knýja fram úrslit.“

Herði var sagt að mæta á keppnisstaðinn ekki síðar en á þriðjudeginum. Átti hann að nota þann dag til að kynna sér völlinn til hlítar upp á eigin spýtur en mótið hófst venju samkvæmt á fimmtudegi og stóð fram á sunnudag. „Á þriðjudeginum mátuðum við einnig föt og gerðum eitt og annað en á miðvikudagsmorgni var dómarafundur. Þar voru línurnar lagðar og menn gengu völlinn í hópum. Þar fékk maður útlistun á öllum sérreglum á vellinum. Þá fékk ég að vita hvað ég ætti að gera fyrstu tvo keppnisdagana.“

Fylgdi stjörnunum eftir

Þar sem Hörður var nýliði á stóra sviðinu var honum ekki hent út í djúpu laugina á fyrsta degi, en í frumraun sinni fylgdist hann meðal annars með Svíanum Henrik Stenson sem átti eftir að standa uppi sem sigurvegari í mótinu. „Fyrsta daginn var ég settur með reyndum dómara og fylgdist einungis með honum. Einn dómari fylgir einum ráshópi allan hringinn. Í þessum ráshópi voru Henrik Stenson, Zach Johnson (sem var ríkjandi meistari í mótinu) og Adam Scott. Það var ekki verra fyrir mig að Stenson skyldi vinna mótið. Þetta var fín aðlögun en þeir spiluðu svo vel að fátt gerðist hvað reglurnar varðar,“ sagði Hörður og brosir bara þegar blaðamaður veltir því fyrir sér hvort Hörður hafi fært Stenson gæfu. Svíinn hafði aldrei unnið risamót fyrr en á Opna breska í ár þrátt fyrir flottan feril.

Á föstudeginum var Herði hins vegar hent út í djúpu laugina og þá fylgdi hann einum ráshópi eftir sem dómari. Í þeim ráshópi var Belginn Nicolas Colsaerts sem var í sigurliði Evrópu í Ryder-bikarnum 2012. Gamla brýnið Rod Pampling frá Bandaríkjunum var einnig í ráshópnum og sá þriðji var landi hans, Patton Kizzire.

Colsaerts fékk ekki lausn

„Stressið var aðeins meira á öðrum degi, en það var mjög gott að hafa fengið að fylgjast með á fyrsta degi. Þá var ég bara einn en maður getur haft samband við aðra dómara í talstöð ef maður er efins vegna vafaatriða. Ítrekað var að menn væru óhræddir við að biðja um aðstoð. Hægt var að fá aðstoð frá fjórum dómurum sem eru lausir á vellinum, en ef virkilega flókið úrlausnarefni kæmi upp þá gátu menn kallað á David Rickman sem er æðsti prestur í dómgæslunni. Rickmann var bara lokaður inni með talstöðvar og sjónvörp allan tímann, en tilbúinn að bregðast við ef á þyrfti að halda,“ útskýrði Hörður, en ekki verður hjá því komist að fella einhverja dóma á hringjum sem þessum?

„Nei, en sumt af því voru bara einfaldir hlutir. Ég man eftir atviki hjá Colsaerts þegar hann drævaði út í kargann hægra megin á 10. holu. Þrátt fyrir alla starfsmennina og áhorfendurna tók samt þrjár mínútur að finna boltann. Þegar boltinn fannst vildi hann endilega lyfta boltanum því hann vildi athuga hvort hann væri sokkinn í eigin fari. Ég þurfti að skipta mér af því þar sem engin lausn er í boði frá sokknum bolta í eigin fari ef hann er utan brautar. Þeir sem spila í Ameríku eru hins vegar vanir því og hann var því hálfsvekktur enda dæmdi hann boltann ósláanlegan og tók víti.“

Mikið stress á öðrum hring

„Ég fann hins vegar að dómararnir voru aðallega stressaðir yfir aðstæðum sem þeir eru óvanir. Snérist það aðallega um ýmsar sérreglur vegna áhorfendafjöldans. Þeim fylgja stúkur og girðingar. Staðarreglurnar eru þá saumaðar saman í kringum það,“ sagði Hörður en hann sagði spennuna hafa byggst upp á öðrum degi þegar smám saman varð ljóst að allir kylfingarnir í ráshópnum voru við það að komast í gegnum niðurskurð keppenda.

„Það var svolítið gaman að því fyrir mig. Keppendur sem spiluðu á fjórum yfir pari og betur komust áfram. Þannig hittist á að allir þrír í ráshópnum mínum voru á fjórum yfir pari samanlagt á 18. teig. Fyrir vikið var virkileg alvara í þessu.

Pampling stóðst ekki pressuna og sló í áhorfendastúkuna en þaðan datt boltinn niður á gras. Hann þurfti hvorki lausn frá stúkunni né girðingunni sem var þar nærri. Í raun var ekkert fyrir honum, en stór og mikill járnstaur var vinstra megin við þá stefnu sem hann þurfti að taka inn á flötina. Staurar sem þessi höfðu verið skilgreindir í staðarreglunum sem hreyfanlegar hindranir. Ég bauð honum því að fjarlægja staurinn og auðvitað vildi hann það. Staurinn var ekki hreyfanlegri en svo að kalla þurfti út mannskap og verkfæri til að taka staurinn niður. Hann klúðraði öðru högginu og sló í þá átt sem staurinn hafði verið og var því langt frá því að hitta flötina. Hann fékk skolla og missti því af niðurskurðinum greyið,“ sagði Hörður Geirsson í samtali við Morgunblaðið.