Samstarf Skúli og Ólöf hafa starfað saman í tónlist síðan árið 2005.
Samstarf Skúli og Ólöf hafa starfað saman í tónlist síðan árið 2005. — Morgunblaðið/Ófeigur
Ásdís Ásgeirsdóttir asdis@mbl.is Fyrir tónlistarunnendur sem ekki ætla í útilegu um verslunarmannahelgina er tilvalið að eiga notalega stund í Mengi á Óðinsgötu á laugardagskvöldi.

Ásdís Ásgeirsdóttir

asdis@mbl.is

Fyrir tónlistarunnendur sem ekki ætla í útilegu um verslunarmannahelgina er tilvalið að eiga notalega stund í Mengi á Óðinsgötu á laugardagskvöldi. Þar munu tónlistarmennirnir Ólöf Arnalds og Skúli Sverrisson stilla saman strengi sína á innilegum tónleikum og hefjast þeir klukkan níu. „Við ætlum að flytja eitthvað af nýjum lögum sem ég er að semja fyrir næstu plötu í bland við eldri lög eftir mig og Skúla. Sum verkin eru enn í vinnslu en ég get alla vega lofað einum frumflutningi,“ segir Ólöf.

Brallað margt saman

Ólöf og Skúli hafa starfað saman í tónlist síðan árið 2005. „Það er orðið mjög langt og farsælt samstarf. Bæði hef ég spilað inn á hans plötur og hann verið upptökustjóri á mínum plötum. Hann samdi líka verk fyrir Sinfóníuhljómsveitina og röddina mína, sem var flutt árið 2014. Við höfum brallað margt saman í gegnum tíðina,“ segir Ólöf sem hlakkar til að spila á laugardaginn.

Eitthvað nýtt í pokahorninu

„Ég myndi segja að þetta verði góð og hugljúf upplifun sem fólk þarf ekki að leita langt yfir skammt til að sækja. Það er mikil nánd á þessum stað, Mengi, en Skúli er þar einnig listrænn stjórnandi. Ég er ein af þeim hópi sem stofnaði staðinn þannig að við erum þarna á heimavelli,“ segir Ólöf. „Við munum koma á óvart, við ætlum að reyna það,“ segir hún og hlær. „Við erum með eitthvað nýtt í pokahorninu líka.“