Nokkuð ber á gagnrýnisröddum þessa dagana sem telja að aukinn straumur ferðamanna til landsins sé farinn að hafa neikvæð áhrif á miðborg Reykjavíkur.

Nokkuð ber á gagnrýnisröddum þessa dagana sem telja að aukinn straumur ferðamanna til landsins sé farinn að hafa neikvæð áhrif á miðborg Reykjavíkur. Er þar ekki síst vísað til fjölgunar hótela og gististaða og verslana sem kenndar eru við blessaðan lundann sem ég get ekki séð að hafi unnið sér nokkuð til óhelgi, alltént ekki svo að hann sé notaður sem uppnefni í gagnrýni á verslunarmenninguna í landinu. Þá vísa gagnrýnendur einnig til þess að vart sé Íslending að sjá á ferli í miðborginni og að sá ógurlegi fjöldi útlendinga sem leggur leið sína um Laugaveg og hliðargötur út frá honum, valdi því að „íslensk stemmning“ eða „andrúmsloft“ sé með öllu horfið af svæðinu.

Vissulega hefur hin ört vaxandi atvinnugrein sem ferðaþjónustan er, haft mikil áhrif á samsetningu þess hóps sem saman er kominn í miðborginni á hverjum tíma og atvinnulífið á svæðinu hefur einnig tekið breytingum og lagað sig í auknum mæli að þeim tækifærum sem ferðaþjónustan býr til. Hins vegar er það einfaldlega ekki réttmæt gagnrýni að miðborgin verði einsleitari fyrir vikið. Aldrei fyrr hafa jafnmargir veitingastaðir, kaffihús og verslanir verið í rekstri á svæðinu að ótalinni allri þeirri þjónustu sem einnig hefur skotið upp kollinum á síðustu misserum og miðar að því að þjónusta ferðamenn sem leggja leið sína til Íslands.

Þróunin hefur reyndar leitt til þess að ýmis rótgróin og þekkt fyrirtæki hafa hopað fyrir öðrum en þar er um þróun að ræða sem í flestum tilvikum er óhjákvæmileg í ljósi þeirrar lýðfræðilegu breytingar sem orðið hefur á svæðinu. Mörg af hinum rótgrónu fyrirtækjum aðlaga sig breyttum aðstæðum og munu eflaust standa styrkari fótum eftir. Má í því sambandi nefna elsta bakarí landsins, Bernhöftsbakarí, og einnig Tösku- og hanskabúðina. Staðreyndin er sú að rótgrónu fyrirtækin sem að mestu hafa einblínt á þjónustu við Íslendinga, geta nú einnig sótt tekjur í þjónustu við ferðalanga langt að komna. Þar þurfa rekstraraðilar að grípa tækifærin í stað þess að hopa undan sókn nýrra fyrirtækja á svæðinu.

Ekki geri ég lítið úr því að ásýnd miðborgarinnar hafi breyst. Þar er allt krökt af fólki sem sækir Reykjavík heim sem ferðalangar. En hin aukna þjónusta og fjölbreytileikinn í henni virðist einnig draga Íslendinga meira í miðbæinn. Þar er margs að njóta. Munurinn er sá að fjölbreytnin er meiri og nú getum við Íslendingar notið þess sem boðið er upp á í samfélagi við fólk frá öllum heimshornum. Það er ánægjuefni fremur en hitt.

Þá er ekki hjá því komist að nefna annan fylgifisk þess mikla uppgangs sem einkennir flestan rekstur í miðbænum. Aukin umsvif, meiri tekjur og hækkandi fasteignaverð hefur leitt til þess að eigendur fasteigna eru tilbúnir til að leggja aukið fjármagn í viðhald eigna sinna. Miðborgin verður fallegri með hverjum deginum.

ses@mbl.is

Stefán Einar Stefánsson