Efnilegur Hákon Daði Styrmisson.
Efnilegur Hákon Daði Styrmisson. — Morgunblaðið/Ófeigur
Strákarnir í U20-handboltalandsliðinu unnu Slóvena 23:19 í gær þegar liðin mættust í riðlakeppni Evrópumótsins sem haldið er í Danmörku. Ísland leikur hreinan úrslitaleik á sunnudaginn gegn heimsmeisturum Spánar um efsta sæti riðilsins.

Strákarnir í U20-handboltalandsliðinu unnu Slóvena 23:19 í gær þegar liðin mættust í riðlakeppni Evrópumótsins sem haldið er í Danmörku. Ísland leikur hreinan úrslitaleik á sunnudaginn gegn heimsmeisturum Spánar um efsta sæti riðilsins.

Leikurinn gegn Slóveníu var í höndum íslenska liðsins nánast allan tímann. Strákarnir voru ósáttir við varnarleikinn gegn Rússum á fimmtudaginn og þeir bættu í götin í þessum leik. Slóvenar komust hvorki lönd né strönd og Ísland hafði þriggja marka forystu, 10:7 í hálfleik.

Íslenska liðið virtist vera að stinga af í stöðunni 16:11 en Slóvenía er með gott lið og minnkaði muninn í eitt mark, 18:17. Þá kom aftur góður kafli Íslands og fjögurra marka sigur varð niðurstaðan.

Ný gullkynslóð að fæðast?

Íslenska liðið er að mestu skipað sömu leikmönnum og unnu til bronsverðlauna á Heimsmeistaramóti U19-landsliða í fyrra. Í liðinu eru leikmenn sem hafa sannað sig í efstu deild hér heima og nokkrir þeirra eru að stíga sín fyrstu skref í atvinnumennsku.

Það segir ýmislegt um styrk liðsins að þrátt fyrir að lykilmaðurinn Ómar Ingi Magnússon hafi aðeins skorað eitt mark, þá vannst sannfærandi sigur gegn sterku liði Slóveníu.

Árið 1993 vann Ísland bronsverðlaun á Heimsmeistaramóti U-21 liða. Með því liði léku m.a. Ólafur Stefánsson, Patrekur Jóhannesson og Dagur Sigurðsson. Tíminn verður að leiða í ljós hvort að drengirnir í U20-liðinu geta fetað í fótspor þessara goðsagna. bgretarsson@mbl.is