Popp Páll Óskar, Jón Jónsson, Nykur og Mosi Musik koma m.a. fram.
Popp Páll Óskar, Jón Jónsson, Nykur og Mosi Musik koma m.a. fram. — Morgunblaðið/Kristinn
Poppkóngurinn Páll Óskar Hjálmtýsson mun koma fram á tónlistarhátíðinni Gærunni á Sauðárkróki dagana 12. til 14. ágúst en hann kom þar einnig fram í fyrra við mikinn fögnuð.

Poppkóngurinn Páll Óskar Hjálmtýsson mun koma fram á tónlistarhátíðinni Gærunni á Sauðárkróki dagana 12. til 14. ágúst en hann kom þar einnig fram í fyrra við mikinn fögnuð. Babb kom í bátinn hjá skipuleggjendum tónlistarhátíðarinnar þegar fyrirtækið Loðskinn á Sauðárkróki fór í gjaldþrot fyrr í sumar en hátíðin hefur verið haldin í geymsluhúsnæði fyrirtækisins undanfarin ár. Það var því tvísýnt á tímabili hvort hátíðin yrði haldin í ár enda skyndilega orðin húsnæðislaus.

Nú á dögunum náðist hins vegar að semja við kröfuhafa Loðskinns og Gæran fær því að halda sínu striki á sama stað og hún hefur verið undanfarin ár. Ástæðan fyrir nafni hátíðarinnar er einmitt tengingin við rýmið sem hátíðin hefur verið haldin í en það er alla jafnað notað til að geyma gærur. Aðrir tónlistarmenn og hljómsveitir sem stíga á svið þessa helgina eru meðal annars Jón Jónsson, Nykur, Lily of the Valley, Mosi Musik, Rythmatic og Contalgen Funeral.