Rétt áttatíu ár eru liðin, frá því að spænska borgarastríðið hófst 17. júlí 1936, en þar sigruðu þjóðernissinnar lýðveldismenn.

Rétt áttatíu ár eru liðin, frá því að spænska borgarastríðið hófst 17. júlí 1936, en þar sigruðu þjóðernissinnar lýðveldismenn. Að minnsta kosti fjórir Íslendingar gengu í lýðveldisherinn: Gunnar Finsen læknir, Hallgrímur Hallgrímsson, sem hlotið hafði hernaðarþjálfun í Moskvu, og þeir Aðalsteinn Þorsteinsson, hnefaleikakappi og síbrotamaður, og Björn Guðmundsson, rumur stór, sem kemur fyrir í skáldsögum frænda síns Einars Más Guðmundssonar undir nafninu Ragnar risi.

Í raun var Hallgrímur hinn eini þeirra, sem barðist með vopn í hendi. Gunnar sinnti lækningum og Aðalsteinn og Björn komu of seint til að fara út á vígvöllinn, þótt Björn særðist í loftárás á hermannaskála, þar sem hann sat og sinnti þörfum sínum. Fimmti maðurinn, skáldið Dagur Austan, Vernharður Eggertsson, sagðist hafa barist í stríðinu og skrifaði meira að segja um það heila bók, en erfitt er að leggja trúnað á frásögn hans, sem styðst ekki heldur við aðrar heimildir.

Ýmsir vestrænir menntamenn hafa talið stríðið hafa verið milli ills og góðs, séð það í hvítu og svörtu. Ég hef bent á, að ein frásögnin úr því er þó marghrakin: að loftárásin á Guernica vorið 1937 hafi verið hryðjuverk, en ekki hernaðaraðgerð. Sannleikurinn er sá, að bærinn hafði talsvert hernaðargildi vegna legu sinnar, í honum var nokkurt herlið, og í útjaðri hans voru vopnasmiðjur. Þótt þýskar herflugvélar hafi gert árásina, var hún að undirlagi þjóðernissinna.

Stríðið var ekki heldur milli einræðis og lýðræðis, eins og oft er haldið fram, því að lýðveldismenn voru ekki allir einlægir lýðræðissinnar. Því er lýst í Svartbók kommúnismans , sem kom út á íslensku 2009, hvernig leyniþjónusta Stalíns náði smám saman undirtökum í lýðveldishernum og elti miskunnarlaust uppi stjórnleysingja og trotskíista og myrti. Tveimur Spánarförum, George Orwell og Arthur Koestler, blöskraði, og snerust báðir frá kommúnisma. Koestler segir frá skoðanaskiptum sínum í bókinni Guðinum sem brást , sem bráðlega verður endurútgefin á íslensku. Annað rit, sem verður endurútgefið í tilefni þessara áttatíu ára, er Bóndinn. El campesino , endurminningar Valentíns González, sem var einn af herforingjum lýðveldismanna, flýði til Rússlands eftir sigur þjóðernissinna, en lenti í þrælkunarbúðum Stalíns. Stríðið reyndist ekki vera í hvítu og svörtu, heldur um orsakir í gráu og um afleiðingar í rauðu — lit blóðsins.

Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar

Hannes H. Gissurarson

hannesgi@hi.is