Beinagrind Grjóthnullungar fundust m.a. við höfuð þeirra látnu.
Beinagrind Grjóthnullungar fundust m.a. við höfuð þeirra látnu. — Ljósmynd/Byggðasafn Skagfirðinga
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Jón Birgir Eiríksson jbe@mbl.is Í Morgunblaðinu á fimmtudag var fjallað um fornleifauppgröft við bæinn Keflavík í Hegranesi í Skagafirði, en þar kom í ljós að steinum hafði verið komið fyrir í gröfum kirkjugarðsins.

Sviðsljós

Jón Birgir Eiríksson

jbe@mbl.is

Í Morgunblaðinu á fimmtudag var fjallað um fornleifauppgröft við bæinn Keflavík í Hegranesi í Skagafirði, en þar kom í ljós að steinum hafði verið komið fyrir í gröfum kirkjugarðsins.

Fram kom í viðtali við Guðnýju Zoëga, mannabeinafræðing og deildarstjóra fornleifadeildar Byggðasafns Skagfirðinga, að kirkjugarðurinn hefði verið tekinn í notkun skömmu eftir kristnitöku, um árið 1000, og verið í notkun fram á fyrstu áratugi 12. aldar.

Að sögn Guðnýjar er uppgröfturinn enn í gangi og öll úrvinnsla og túlkun gagna því enn á frumstigi. Ekki verði hægt að álykta um niðurstöðurnar fyrr en í vetur í fyrsta lagi.

Svipuð notkun steina til að merkja grafir er þekkt úr samtíða kirkjugörðum hérlendis, t.a.m.í kirkjugarðinum að Þórarinsstöðum í Seyðisfirði. Hins vegar er víðtæk lagning steina í graffyllingar og ofan á kistur nokkurt nýnæmi og virðist sem steinar hafi haft mikilvægu hlutverki að gegna við greftrun í kirkjugarðinum í Keflavík í Hegranesi.

Til varnar afturgöngu?

Að sögn Sigurðar Ægissonar, sóknarprests á Siglufirði og þjóðfræðings, er erfitt að segja nákvæmlega til um hvernig sá siður sé tilkominn að leggja steina í grafir. Þó séu til fræðikenningar um slíkt, til dæmis kenningar rúmenska fræðimannsins Mircea Eliade.

„Hugmynd hans var að steinninn hafi átt að koma í veg fyrir að viðkomandi gengi aftur, sálin festist í steininum. Það væri upprunalega hugmyndin á bak við legsteininn sem er auðvitað löngu gleymd núna. Nú er aðallega litið á steininn sem efni sem endist o.s.frv.,“ segir hann.

Sigurður bætir þó við að Eliade hafi ekki verið óumdeildur fræðimaður á sínum tíma.

Hvítir steinar við stóðarholur

Guðný segir að auk þess sem steinar hafi verið lagðir ofan á kistur, sérstaklega á höfuð- eða fótendum, hafi þeim einnig verið komið fyrir í gröfum við höfuð þeirra sem ekki voru grafnir í kistum.

„Steinar, og stundum torf, hafa verið notaðir til að skorða af höfuð hinna látnu jafnt fullorðinna sem barna. Það hefur líklega tengst því að menn hafa átt að horfa mót austri á hinsta degi. Í nokkrum gröfum hafi einnig fundist steinar ofan við höfuð ungbarna,“ segir hún.

Aðspurð um skyldleika við siði nágrannalandanna, segir Guðný að sams konar notkun steina hafi tíðkast í Skandinavíu, á Írlandi, í Skotlandi og á Englandi.

„Við finnum líka nokkuð af hvítum steinum í gröfum í garðinum, en hvítir steinar fundust líka við allar fjórar hornstoðir kirkjunnar. Við höfum fundið sams konar hvíta steina í öðrum görðum sem við höfum rannsakað,“ segir Guðný og bætir við:

„Steinar hafa greinilega einhverja sérstaka þýðingu í frumkristnum greftrunarsiðum, en auk þess má nefna að sérstakir altarissteinar voru notaðir í ölturum,“ segir hún en áréttar þó að of snemmt sé að álykta um niðurstöðurnar.