Aukin framlög til afrekssjóðs ÍSÍ gætu breytt miklu

Gríðarleg gróska er í íslensku íþróttalífi um þessar mundir og er nánast sama hvert litið er. Heimurinn fylgdist agndofa með frammistöðu íslenska karlalandsliðsins í fótbolta á Evrópumeistaramótinu í Frakklandi, kvennalandsliðið er við það að tryggja sig inn á sama mót á næsta ári þriðja skiptið í röð. Á sama tólf mánaða tímabilinu kepptu karlalandsliðin í körfubolta og handbolta einnig á Evrópumótum. Margar sýnu stærri þjóðir teldu sig fullsæmdar af að komast á Evrópumót í einni af þessum greinum.

Þá má ekki gleyma frammistöðu íslenskra íþróttamanna í frjálsum íþróttum og sundi. Vekur undrun þeirra, sem til þekkja á alþjóðlegum vettvangi, hversu margir íþróttamenn í fremstu röð koma frá Íslandi.

Nú á að gera bragarbót á þessu. Í fyrradag var undirritaður samningur milli ríkisins og íþróttahreyfingarinnar um mikla aukningu fjárframlaga til afrekssjóðs Íþróttasambands Íslands. Verður upphæðin ferfölduð á næstu þremur árum. Sagði Lárus Blöndal, forseti ÍSÍ, að samkomulagið væri bylting.

Það vill gleymast þegar árangur næst í íþróttum að hann var ekki fyrirhafnarlaus. Íþróttamenn þurfa að leggja á sig gríðarlegt erfiði og færa fórnir án þess að fá mikinn stuðning.

Til marks um ólíkan stuðning er að danska karlalandsliðið í handknattleik fékk 145 milljónir til að búa sig undir Ólympíuleikana 2012, en það íslenska 10 milljónir, að því er fram kom í Morgunblaðinu í gær. Þar var einnig vitnað í Rögnu Ingólfsdóttur badmintonspilara, sem við undirritun samningsins lýsti harki sínu til að geta stundað íþróttina og sagði að sennilega hefði hún misst af einum Ólympíuleikum vegna fjárskorts. Með þessu samkomulagi ætti íþróttamönnum að vera auðveldað að búa sig undir stórmót án þess að hafa áhyggjur af því hvort þeir eigi til hnífs og skeiðar.