Sigurgeir Kristjánsson var fæddur 30. júlí 1916 í Haukadal í Biskupstungum, Árn. Foreldrar hans voru Kristján Loftsson, bóndi þar og síðar á Felli í sömu sveit, og k.h. Guðbjörg Greipsdóttir, dóttir Greips Sigurðssonar hreppstjóra í Haukadal.

Sigurgeir Kristjánsson var fæddur 30. júlí 1916 í Haukadal í Biskupstungum, Árn. Foreldrar hans voru Kristján Loftsson, bóndi þar og síðar á Felli í sömu sveit, og k.h. Guðbjörg Greipsdóttir, dóttir Greips Sigurðssonar hreppstjóra í Haukadal.

Sigurgeir varð búfræðingur frá Hvanneyri 1937, stundaði búnaðarnám í Svíþjóð veturinn 1946-1947 og var bústjóri í Laugardælum 1942-1950. Hann fluttist til Vestmannaeyja 1950 og hóf störf hjá lögreglunni í Vestmannaeyjum í ársbyrjun 1951, og starfaði sem lögregluþjónn til 1968. Var settur yfirlögregluþjónn um skeið.

Sigurgeir var ráðinn forstjóri útibús Olíufélagsins hf. 1968, og starfaði hann þar, þar til hann lét af störfum vegna aldurs 1990. Bæjarfulltrúi var hann 1962-1982, varabæjarfulltrúi 1956, 1958-1962, 1983, forseti bæjarstjórnar 1966-1975. Í bæjarráði var hann 1966-1982 og sat hann 786 bæjarráðsfundi.

Sigurgeir sat tvívegis á Alþingi sem varaþingmaður Framsóknarflokksins í Suðurlandskjördæmi, árin 1968 og 1971. Hann átti sæti í miðstjórn Framsóknarflokksins 1956-1980, í stjórn Sparisjóðs Vestmannaeyja 1958-1991, og stjórnarformaður 1974-1991.

Hann sat í stjórn Herjólfs hf. í nokkur ár og í stjórn Kaupfélags Vestmannaeyja og formaður þess um skeið. Hann sat í ritnefnd Framsóknarblaðsins um langt árabil.

Sigurgeir var félagi í Rótarýklúbbi Vestmannaeyja frá 1970 og forseti klúbbsins 1986-1987.

Sigurgeir kvæntist 1947 Björgu Ágústsdóttur, f. 18.8. 1923, d. 30.9. 2005, dóttur Ágústs Sigfússonar bónda í Stóru-Breiðuvík, og síðar verslunarmanns í Vestmannaeyjum og k.h. Elínar Halldórsdóttur frá Búðarhóli í Landeyjum.

Börn Sigurgeirs og Bjargar: Elín Ágústa, Kristján, Yngvi Sigurður og Guðbjörg.

Sigurgeir lést 5.6. 1993.