Agnar Ólafsson fæddist 4. janúar 1944. Hann andaðist 7. júlí 2016. Útför Agnars fór fram 19. júlí 2016.

Fallinn er óvænt frá okkur góður vinur, Agnar Már Ólafsson.

Agnari kynntist ég fyrst á ferðalagi á Kanaríeyjum, var það okkar griðastaður síðustu ár með Agnari yfir jól og áramót. Aldrei hefði mér dottið það í hug að seinasta ferð hefði verið sú síðasta með honum, enda var Agnar á leið til Kanada núna í júlí og að sjálfsögðu búinn að panta ferð til Kanarí yfir vetrartímann.

Við Ómar höfðum oft sagt við Agnar hvað okkur þótti hann vera reglulega seigur. Hann tók það nú ekki í mál. Sannleikurinn er sá að það er ekki hvaða persóna sem er sem lætur drauma sína rætast, fer sínar ferðir sem hún hefur hug á og það ein á ferð. Drifkrafturinn var einstakur. Það var auðvelt fyrir Agnar að kynnast nýju fólki og maður fann það hvað hann naut þess að flakka erlendis. Okkur þótti það fyndið þegar Agnar sagðist vera með ferðaumboðsmann á Borgarnesi. Það dugði nú heldur ekkert minna til, því nú var hans tími kominn til að njóta lífsins, ferðast og slappa af, eftir að hafa unnið í rúm fimmtíu ár hjá Vírneti.

Mikið afskaplega er ég þakklát fyrir að hafa kynnst honum Agnari og allar þær gæðastundir sem við höfum átt saman.

Nú í sumar höfum við gert svo mikið saman. Aldrei var keyrt í gegnum Borgarnes án þess að koma við í kaffi hjá Agnari á æskuheimili hans, Borgarbraut 50, bíltúrarnir um Borgarnes og Borgarfjörðinn. Agnar dró okkur einnig með sér á Byggðasafnið á Akranesi. Allar þessar góðu minningar og þessar frábæru stundir sem við vorum svo heppin að fá að njóta með honum þessa síðustu mánuði hans.

Þessar frábæru stundir verða að lifa í huga okkar og myndum sem við vorum sem betur fer dugleg að taka.

Það verður skrítið að keyra í gegnum Borgarnes og hitta ekki Agnar, fara til Kanaríeyja í vetur og hafa ekki félagsskap af þessum mikla meistara eða einfaldlega taka upp símann og heyra í honum hljóðið. Þetta snögga fráfall þessa góða vinar kennir manni að lifa í núinu og njóta lífsins á hverjum degi, því hver dagur er guðsgjöf.

Ég vil þakka þér, okkar kæri vinur, fyrir allar samverustundirnar og vona að vinur okkar Hemmi hafi tekið lagið fyrir þig þarna uppi, það hefði fengið þig til að brosa. „Einn dans við mig.“

Hvíldu í friði, elsku Agnar.

Þó er eins og yfir svífi

enn og hljóti að minna á þig

þættirnir úr þínu lífi,

þeir, sem kærast glöddu mig.

Alla þína kæru kosti

kveð ég nú við dauðans hlið,

man, er lífsins leikur brosti

ljúfast okkur báðum við.

(Steinn Steinarr)

Þinn vinur,

Gréta Jóhanna Ingólfsdóttir.

Elsku Agnar.

Það var sárara en orð fá lýst að frétta af fráfalli þínu, hvernig gat þetta staðist, spurði maður sig, hljóta þetta ekki að vera einhver mistök? En guð bæði gefur og tekur, hann tók þig frá okkur en gaf okkur að sama skapi hafsjó minninga, fyrir það er ég þakklátur.

Það var mikill fengur og heiður að kynnast þér og ég veit að þú naust stundanna okkar saman, það þurfti aldeilis ekki að vera nein skemmtidagskrá til að hafa ofan af fyrir okkur, þú varst alltaf tilbúinn að fara hvert sem var, bæði hér heima og úti á Kanarí, þar sem við áttum margar af okkar bestu stundum.

Þú varst skemmtilega glettinn og það eru ófá hlátursköstin sem rifjast hafa upp síðustu dagana, eins varstu vel lesinn og fróður sem kom svo skemmtilega fram er við horfðum á Útsvarsþátt sl. vetur suður í Keflavík er við gistum þar á hóteli. Spyrillinn var vart búinn að ljúka við spurningarnar fyrr en þú hafðir svarað hverri spurningunni á fætur annarri og það kórrétt. Manni gafst lítill tími til umhugsunar þér við hlið.

En það var ekki bara að þú værir vel lesinn og fróður, verklegir hlutir snerust ekki frekar fyrir þér og var ég svo heppinn að geta gengið að þeim fróðleiksbanka bæði í tíma og ótíma.

Nú í sumar áttum við mikið af góðum stundum, alltaf var heitt á könnunni hjá þér og alltaf varst þú tilbúinn að kíkja á okkur Grétu er við vorum í nágrenninu og var það orðinn hálfgerður vani hjá okkur að borða súpu þegar inn í hjólhýsið var komið eftir brölt dagsins. Var þetta orðin skemmtileg hefð og súpurnar orðnar bæði ýmsar og síbreytilegar fyrir vikið.

Elsku Agnar takk fyrir að vera til, takk fyrir allar minningarnar, þær munu lifa.

Systkinum og frændsystkinum færi ég mínar dýpstu samúðarkveðjur.

Floginn burt úr eld og ís

á arnarvængjum þöndum.

Orðinn páfi í paradís

með pálma í báðum höndum.

(Auðunn Ingvarsson)

Ómar Raiss.

Mig setti hljóðan er ég frétti að kær vinur, Agnar Ólafsson, hefði orðið bráðkvaddur á heimili sínu, Borgarbraut 50, – í því sama húsi sem hann fæddist og ólst upp í og varð hans heimili til hinstu stundar.

Hugurinn hvarflar til haustsins árið 1967 er undirritaður gerðist kennari í Borgarnesi og framkvæmdastjóri umf. Skallagríms og samkomuhúss staðarins. Þar kynntist ég þér fyrst og fljótlega varstu orðinn heimilisvinur.

Agnar var mikill vexti, stór í sniðum bæði í sjón og raun. Ágætur íþróttamaður á yngri árum í frjálsum íþróttum sérstaklega í köstum enda stór og sterkur.

Fas hans lýsti í senn festu og alvöruþunga sem og góðvild í garð annarra og handtakið var þétt, en hann var ekki allra.

Hann var bjartur yfirlitum, sviphreinn og drengur góður í hvívetna laus við allt fals og undirferli. Samviskusamur með afbrigðum – sem sýnir það best að hans vinnustaður Vírnet spannaði yfir 50 árin.

Við áttum margar góðar stundir saman er við ræddum um margvísleg málefni, en fljótlega barst talið að pólitík innanlands sem utan landsteinanna, enda Agnar hafsjór af fróðleik enda víðlesinn.

Hann hugsaði málin vel áður en hann setti fram skoðanir sínar á þeim. Hann var sannur íhaldsmaður „af gamla skólanum“. Hafa skyldi það sem sannara reyndist að hans mati, þess vegna tók umræðan á sig fjölbreytilegan blæ, enda ég af öðru „sauðahúsi“ í pólitík.

Nú upp á síðkastið, áttum við löng símtöl m.a. einu sinni í viku er báðir voru ekki af bæ. Það var huggun harmi gegn að ég fékk að njóta þess að ræða við þig í hinsta sinn miðvikudagskvöldið 6. júlí sl. Við byrjuðum á pólitík sem fyrrum en fljótlega fórum við í þetta sinn inn á heimspeki – við ræddum um giftu og gæfuleysi, gleði og sorg, já lífið almennt en ekkert um tilfinningar er beindust að þér. Þú barst þær aldrei á torg við nokkurn mann, þó skynjaði ég einhvern trega eða hvað? Mér fannst miður að þú sagðir mér aldrei að þú værir farinn að finna fyrir hjartveiki. Það var ekki þinn stíll. Þú vissir líka reyndar að ég myndi ýta vel við þér enda hjartasjúklingur sjálfur. Þess vegna komst þú þér ekki að því.

Þú varst sannur vinur, sannkallað tryggðartröll, hjálpsamur við vini þína sem og vandamenn með afbrigðum, samviskusamur og ósérhlífinn. Það er að vera maður.

Við áttum líka saman margar aðrar góðar yndisstundir bæði í veiði, mat og drykk á heimili mínu en hæst standa þjóðfélagslegu umræðurnar okkar er við mátum báðir mikils. Þar sem saman voru hnýttir og stilltir strengir á vegi lífsgöngunnar. En þú fórst allt of fljótt frá okkur. Þú sem áttir eftir að ferðast svo mikið um heiminn og atvinnan að baki.

En nú er ganga þín á þessari jörð á enda runnin og þú heldur yfir móðuna miklu á vit ástkæru feðra þinna.

Við Helga vottum aðstandendum þínum okkar dýpstu samúð. Hvíl í friði mæti vinur.

Eyjólfur Magnússon

Scheving.