[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ásdís Ásgeirsdóttir asdis@mbl.is Í Norræna húsinu stendur yfir sýningin Öld barnsins þar sem finna má norræna hönnun úr efnisheimi barna, s.s. húsgögn, leikföng, fatnað, nytjahluti og margt fleira.

Ásdís Ásgeirsdóttir

asdis@mbl.is

Í Norræna húsinu stendur yfir sýningin Öld barnsins þar sem finna má norræna hönnun úr efnisheimi barna, s.s. húsgögn, leikföng, fatnað, nytjahluti og margt fleira. Sýningin hefur ferðast um Norðurlönd síðustu tvö ár og er nú komin hingað og hefur fjölmörgum verkum eftir íslenska hönnuði verið bætt við norrænu sýninguna. Á sýningunni eru þekkt verk eftir Alvar Aalto, Ólaf Elíasson, Arne Jacobsen, Kay Bojesen, Carl og Karin Larsson, Peter Opsvik og Tove Jansson og nokkur af vinsælustu vörumerkjum heims á borð við BRIO, LEGO og Marimekko.

Sýningin betrumbætt

Guja Dögg Hauksdóttir, sýningarstjóri og sýningarhönnuður yfir íslenska hlutanum, segir að þegar sýningin hafi komið hingað til landsins hafi hún tekið eftir hversu fáir íslenskir munir voru með. „Ég spurði þá hvort ég mætti setja inn íslenska hluti og það var mikil stemning fyrir því. Það mun svo verða framvegis hluti af sýningunni en hún á eftir að fara til Berlínar í sendiráðið og víðar,“ segir Guja. „Ég betrumbætti sýninguna, en mér fannst mikilvægt að velja eitthvað sem væri sérstakt fyrir Ísland en líka fyrir Norðurlönd. Það eru ákveðnir þræðir varðandi húmanisma og samfélagsvitund og endurnýtingu efna sem ég hafði í huga og svo auðvitað gæði,“ segir hún.

Ekki bara „smart og kúl“

Guja telur íslenska hönnuði mjög færa. „Við eigum ekki langa sögu af hönnunarskólum en Listaháskólinn byrjaði um aldamótin og er það núna að skila sér í alveg ótrúlega fínum hönnuðum. Mér fannst gott að vekja athygli á að við erum að gera hluti sem eru alveg á pari við flottustu hönnun á Norðurlöndum,“ segir Guja og nefnir meðal annars dúkkuna Lúllu. „Það er mikill kærleikur í þessu. Það er svo mikið lagt í þetta. Það er þessi umhyggja og blíða sem stýrir hönnuninni, ekki bara að það sé „smart og kúl“,“ segir hún. „Hér er líka til sýnis ný vagga eftir stúlku sem útskrifaðist í vor og svo eru hér leikföng sem eru eins og leggir og skeljar en þetta er framleitt úr plasti. Þetta eru tengingar bæði aftur og fram einhvern veginn með fallega hugsun að baki og mikla sköpunargleði. Þetta spilar á fantasíuna,“ segir Guja sem telur að sýningin muni kynna íslenska hönnun og hönnuði erlendis í framtíðinni.

Börn mega hoppa í pollum

Norræn hönnun er allt öðruvísi en gerist og gengur í öðrum löndum, eins og Bretlandi og Bandaríkjunum að sögn Guju. „Við hérna á Norðurlöndum höfum ákveðna vitund um börn; þau eru ekki endilega stillt og það er ákveðið svigrúm og hefð fyrir því að börn fari út og hoppi í pollum og prófi hluti. Ég veit til dæmis að í Bretlandi er börnum á barnaheimilum ekkert hleypt út ef það er rigning; eiga ekkert regngalla. Við hönnum án þess að börnum verði kalt; án þess að þau meiði sig. Hönnunin miðast við að börnin geti gert þetta. Þetta er bara eðlilegur hluti af æskunni og þá bara eltir hönnunin það.“

Guja bendir einnig á að í norrænni hönnun er notað mikið af náttúrulegum efnum. „Það er meira af ómeðhöndluðum efnum; það er notað alvöru ull, ekki pólyester, alvöru viður, alvöru málning án eiturefna. Og miklu minna af plasti, maður sér það greinilega,“ segir hún.

Tengja námsefni við sýninguna

Sýningin verður opin í hálft ár og mun tengjast ýmsu kennslustarfi. „Ég er ráðin til að búa til námsefni fyrir grunnskólanemendur sem geta þá unnið með sýninguna sem grunn upp á að efla vitund fyrir hönnun sem er ekki bara smart heldur sýnir hvernig er hægt að gera hluti sem auðvelda manninum lífið. Svo verða ráðstefnur og alls konar smiðjur bæði fyrir börn og fullorðna,“ segir Guja.

Börnin mega leika sér

Sýningin er ekki einungis innan dyra því fyrir utan Norræna húsið er búið að koma fyrir sérstökum leiktækjum. „Við teygðum sýninguna út því það er íslenskur framleiðandi sem heitir Krumma og býr til og þróar leikvelli fyrir íslenskar aðstæður. Formið er eins og klettar og hraun, en þetta er þannig að börnin meiða sig ekki. Þetta á að örva börn og hvetja þau til að nota líkamann,“ segir Guja. Hún ákvað einnig að hafa svæði á sýningunni þar sem börn mættu snerta muni og leika sér. „Ég hugsaði að það yrði grátur og gnístran tanna að koma með mömmu og pabba á sýningu og mega ekki snerta. Þannig að í miðju rýminu smíðaði ég hús og keypti inn í það ákveðið úrval af því sem er undir gleri. Margir af hlutunum eru enn í framleiðslu. Þar mega börnin gera allt og það hefur sýnt sig að börn og foreldrar sitja þar löngum stundum þegar þau eru búin að skima sýninguna.“