Soffía Guðmundsdóttir fæddist 28. september 1951. Hún lést 9. júlí 2016.

Útför Soffíu fór fram 20. júlí 2016.

Kling – dyrabjallan á Hrísateignum gellur við. Dillandi hlátur kveður við þegar ég opna hurðina. Soffía er komin. Mamma setur strax upp ketilinn. Kaffið er fram borið, sterkt og gott. Á fóninum hljómar Summertime með Leontyne Price, uppáhaldssöngkonu okkar allra.

Soffía tekur undir með glæsibrag og heillar okkur upp úr skónum.

Soffía var með klangið á hreinu. Hún var hreint náttúrubarn, söng frá innstu hjartarótum og fyllti sál okkar gleði og göfgi. Hún hafði hinn hreina tón. Þegar hún söng þá fylltist loftið af dýrð og geislandi ljóma, eins og gulli væri stráð.

Við fylgdumst að í söngnámi í Tónlistarskóla Kópavogs frá unglingsaldri.

Þú áttir það til að kalla á okkur heim, þessa ungu efnilegu söngvara, því gestrisni var þér í blóð borin. Þá var hlegið dátt og sungið hátt.

Mér fannst hrífandi að hlusta á þig syngja þegar Sverrir tók gítarinn sér í hönd. Þið voruð samhent. Þú áttir auðvelt með að beita röddinni við ótal stíltegundir í sönglistinni. Heimili ykkar var gætt listrænni smekkvísi og fagurt hvert sem augum var litið, af hendi ykkar beggja.

Tilveran leiddi okkur saman að nýju árið 2006, þú þá starfandi sem grunnskólakennari og áður leikskólastjóri. Þú barst hag nemenda þinna fyrir brjósti. Við tókum höndum saman gegn einelti, kynferðisáreiti, bolun og valdníðslu í leik-, grunn-, framhalds- og háskólum sem og á vinnustöðum.

Við sóttum fundi, skrifuðum bréf og vöktum athygli ráðamanna á vandanum, svo sem hjá félagsmálaráðuneytinu, Vinnueftirlitinu, menntamálaráðuneytinu og sóttum fund hjá Kennarasambandi Íslands og hvöttum til úrbóta. Við vorum nokkrir kennarar á öllum aldursstigum, sem stofnuðum Samstarfshóp um vinnuvernd árið 2006 og störfuðum í samvinnu við Eineltissamtökin sem stofnsett voru 1998.

Við vissum að þar sem friður ríkir er ekkert ofbeldi. Við áttum þá fullvissu í hjarta að söngurinn læknaði hjartans mein. Við vorum blómabörnin sem báru stórar hugsjónir í brjósti og ætluðum að frelsa heiminn með söng, því við vissum að:

Söngur er gleði og gaman.

Gaman að taka hér saman,

lag uns við ljómum í framan.

Tónlistin er okkar mál.

Ég veit að ljós þitt mun aldrei slokkna og þú munt halda áfram að strá gullgeislum yfir dætur þínar og Sverri. Þú varst lífskúnstner og listaverkið sjálft, af Guði skapað.

Þín ævarandi vinkona,

Helga Björk Magnúsd.

Grétudóttir og fjölskylda.

Í minningu elskulegrar tengdadóttur minnar, Soffíu Guðmundsdóttur, með hjartans þakklæti fyrir ljúf og gefandi kynni, umhyggju og kærleika alla tíð.

Hver óttast er lífið við æskunni hlær

sem ærslast um sólríka vegi,

og kærleikur útrás í kætinni fær,

sé komið að skilnaðardegi.

Svo viðkvæmt er lífið sem vordagsins blóm

er verður að hlíta þeim lögum

að beygja sig undir þann allsherjardóm

sem ævina telur í dögum.

Við áttum hér saman svo indæla stund

sem aldrei mér hverfur úr minni.

Og nú ertu genginn á guðanna fund

það geislar af minningu þinni.

(Friðrik Steingrímsson.)

Erla Bergmann.

Fyrir örfáum dögum fékk ég þau sorglegu tíðindi að kær vinkona mín, Soffía Guðmundsdóttir, hefði fallið frá. Ég kynntist Soffíu fyrst haustið 2004 og strax þá byrjaði hún að hafa jákvæð áhrif á líf mitt, Soffía var einfaldlega einhver yndislegasta manneskja sem ég hef á ævi minni hitt.

Eflaust eru ekki of margar manneskjur í lífi hvers og eins sem virkilega móta mann, og á mjög óvæntan hátt lék Soffía lykilhlutverk í mínu lífi þegar við kynntumst í gegnum hana Berglindi dóttur hennar. Ég var ekki í góðum málum námslega séð, hafði alls staðar mætt lokuðum dyrum varðandi aðstoð o.s.frv. Soffía var mér ómetanleg hjálp og að vissu leyti bjargaði hún mér frá þeim vandræðum, það er henni að þakka að ég lærði að læra akademískt með dyslexíu og hún átti stóran þátt í því að ég útskrifaðist úr menntaskóla og þar með háskóla, skömmu síðar. Ég á henni margt að þakka.

Við hittumst síðast fyrir ca. tveimur árum, á Garðatorgi, ég var að labba inn og hún út, þetta endaði auðvitað með 20 mínútna spjalli þarna beint fyrir framan kjörbúðina Víði. Það var nefnilega málið með Soffíu, hún hafði raunverulegan áhuga á lífi manns og líðan. Hún spurði hvernig allir hefðu það og vildi vita sannleikann, ekkert yfirborðskennt. Það er alls ekki sjálfsagt að geta verið með svona fallegt hjartalag og samúð fyrir öðrum. Það væru rosalega fá vandamál í heiminum ef allir hefðu þetta sérstaka hjartalag.

Þegar hún fagnaði 60 ára afmæli sínu sendi ég henni kveðju og þakkaði henni fyrir alla þessa hjálp, svarið sem ég fékk til baka var henni líkt, að hún væri tilbúin að vaða eld og brennistein fyrir þá sem henni þykir vænt um – það eru orð að sönnu.

Ég sendi mínar dýpstu samúðarkveðjur á Sverri, Berglindi og Hönnu Soffíu, þeirra missir er mikill.

Hvíldu í friði kæra vinkona, minningin um frábæra manneskju mun lifa.

Jóhann Már Helgason.

Gefa, vona, þiggja, þrá,

þjóna, njóta, gleðja.

Elska, hlæja, fagna, fá,

fara, missa, kveðja.

(Bragi V. Bergmann)

Soffía, mágkona mín, var einstakur gleðigjafi. Hún var jákvæð, hrifnæm og hlý – og hláturmild með eindæmum. Þegar Soffa hló, hlógu allir nærstaddir með henni, jafnvel annálaðir drumbar. Þeir gátu ekki annað, svo smitandi og tær var hlátur hennar. Hann kom beint frá hjartanu. Þaðan kom söngurinn líka, ægifagur og hlaðinn sönnum tilfinningum.

Í Soffu fann Sverrir bróðir lífsförunaut sinn. Hann varð kletturinn hennar og hún hans. Samspil þessa tvíeykis í ólgusjó lífsins var aðdáunarvert og til eftirbreytni.

Við eigum einungis daginn í dag. Við látum okkur dreyma um morgundaginn – en draumur er ekki veruleiki. Margir gleyma þeirri staðreynd í erli dagsins – en ekki Sverrir og Soffa. Þau fögnuðu hverjum degi á sinn hátt og nýttu hvert tækifæri til að gleðjast með sínu fólki; fjölskyldu og vinum. Á slíkum stundum voru þau oft í hlutverki gestgjafa í Grenilundi 10 og geisluðu bókstaflega; samstillt, samhent og sér á báti. Þangað var gott að koma.

Sjúkdómsferlið var stutt en snarpt. Það byrjaði sem brekka en varð að botnlausu hyldýpi á örfáum mánuðum. 35 ára samfylgd sálufélaga lauk snögglega. Eftir standa Sverrir, elskulegar frænkur mínar, Berglind og Hanna Soffía, og aðrir ástvinir með brostið hjarta og beygða lund.

Einboðið er að halda vegferðinni áfram, með lífsgleði Soffíu mágkonu að leiðarljósi. Ljúfar minningar létta erfiða göngu.

Bragi V. Bergmann.