Sigríður Guðný Bjarnveig Georgsdóttir fæddist 23. júlí 1926. Hún lést 4. júlí 2016.

Útför hennar fór fram 13. júlí 2016.

Mig langar í fáum orðum að minnast Sigríðar Georgsdóttur frá Miðhúsum sem nú hefur verið til moldar borin.

Í minni fjölskyldu var hún alltaf „Sigga systir“. Hvenær sem var á nóttu sem degi var maður aufúsugestur á Skúlaskeiðinu, alltaf opið hús og faðmur húsfreyjunnar. Þar var gott að koma og gott að vera. Áratugum saman bjó hún okkur Pöllu systur sinni, mér og börnum, rúm og allan greiða sem aldrei verður þakkað fyrir eins og vert hefði verið.

Hún fór ung að heiman að vinna fyrir sér og settist að í Hafnarfirði eins og fleiri af hennar systkinum. Giftist hér honum Alberti sínum og undi glöð við sitt. Svo kom áfallið stóra er Albert fórst með vélskipinu Eddu í ofsaveðri á Grundarfirði. Þungt var höggið sem á henni lenti með eitt lítið barn og annað á leiðinni. Allt þetta komst hún í gegnum með viljastyrk sínum og meðfæddri þrautseigju.

Hin síðustu árin var heilsan farin og illvígur Alzheimerinn lagði hana að velli að lokum. Þetta eru fátækleg orð til að minnast hinnar þrautseigu og elskulegu mágkonu minnar. Ég og mitt fólk geymum um hana góðar minningar. Börnum hennar og skylduliði sendi ég mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Guð styrki ykkur öll.

Jón Arngrímsson.

Tengdamóðir mín fæðist og elst upp hjá foreldrum sínum í Miðhúsum. Ung flytur hún til Hafnarfjarðar og hefur þar búskap með eiginmanni sínum sem hún missir í blóma lífsins. Upp frá því býr hún ein með börnum sínum tveimur þar til þau hefja eigin búskap.

Nám við Húsmæðraskólann nýttist henni vel. Allt lék í höndum hennar. Saumavélar, skæri, efni, prjónagarn sem og bakstur og matargerð. Kjólar, buxur, munstraðar peysur, sokkar og vettlingar birtust, ísaumaðir dúkar og milliverk í sængur- og koddaver. Alls þessa nutu börn, tengdabörn, barna- og barnabarnabörn.

Tengdamóðir mín var ósérhlífin dugnaðarkona sem oft hugsaði meira um aðra en sjálfa sig. Síðastliðin tvö ár dvaldi hún á Sólvangi í Hafnarfirði. Lífsgangan tók sinn toll. Prjónarnir létu ekki lengur að stjórn, tóku hliðarspor svo rekja varð upp og endurprjóna. Þegar hér var komið vildi tengdamamma hverfa heim í sveitina sína þar sem jökullinn rís í vestri, fjallgarðurinn í norðri með óteljandi litbrigðum þá sólin brýst fram. Uppgróið brunahraunið í austri, gulllitur sandurinn og hafið í suðri sem sópað hefur rekavið og netadræsum á land. Vindurinn blæs upp sandinn sem fær hlé við netin og myndar hæðir sem verða að melgresishólum. Tún, engi, mosi, lautir og land.

Komin er kveðjustund, hafðu þakkir fyrir allt.

Sverrir.