Stjórnun Flugstjórnarmiðstöðin þjónustar flug í kringum landið.
Stjórnun Flugstjórnarmiðstöðin þjónustar flug í kringum landið. — Morgunblaðið/Ernir
„Það má segja að kjaradeilunni ljúki eða hún byrji upp á nýtt þegar dómur Hæstaréttar fellur,“ segir Sigurjón Jónasson, formaður Félags íslenskra flugumferðarstjóra.

„Það má segja að kjaradeilunni ljúki eða hún byrji upp á nýtt þegar dómur Hæstaréttar fellur,“ segir Sigurjón Jónasson, formaður Félags íslenskra flugumferðarstjóra.

Hann segir nýlega dómsátt gerðardóms gerða með fyrirvara um að flugumferðarstjórar muni áfrýja lagasetningu Alþingis um vinnudeilu þeirra til Hæstaréttar.

„Það verður forvitnilegt að sjá hvernig þessi mál þróast, hvort að ríkið geti endalaust verið að setja lög á vinnudeilur. Þessi ríkisstjórn hefur verið afar dugleg við að stöðva vinnudeilur með lagasetningu. Við hjá verkalýðshreyfingunni verðum bara að halda áfram að berjast, við megum ekki láta þetta viðgangast,“ segir Sigurjón.

Vaktir flugumferðarstjóra eru því fullmannaðar núna. Það kom sér vel síðastliðinn miðvikudag þegar bilun kom upp í flugstjórnarmiðstöðinni, þaðan sem flugumferð í kringum landið er stýrt, með þeim afleiðingum að beina þurfti flugvélum, sem voru í alþjóðlegu flugi, frá íslenska flugstjórnarsvæðinu.

Niðurstaða væntanleg í ágúst

Sigurjón segir dómsmálið vera í flýtimeðferð og vonast eftir niðurstöðu í ágúst en ekki verður greitt eftir nýju dómsáttinni fyrr en niðurstaða dómsmálsins liggur ljós fyrir. Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að lagasetning Alþingis stæðist stjórnarskrá.

Ef Hæstiréttur staðfestir þá niðurstöðu gildir dómsáttin til ársloka 2018 en hún byggir á kjarasamningi sem flugumferðarstjórar höfnuðu í atkvæðagreiðslu. Ef Hæstiréttur fellir lagasetningu Alþingis úr gildi er dómsátt gerðardóms marklaus þar sem gerðardómur var skipaður með lagasetningunni. Gerist það færist kjaradeila flugumferðarstjóra aftur á byrjunarreit og hefja þarf kjaraviðræður að nýju. elvar@mbl.is