Afurðir Stjórnendur Primex kynna stoltir vörur sínar á sýningu.
Afurðir Stjórnendur Primex kynna stoltir vörur sínar á sýningu. — Ljósmynd/Primex
„Við erum að reyna að fá meira út úr hverju kílói sem við seljum. Framlegðin er alla leið niður keðjuna,“ segir Ólafur Stefánsson, fjármálastjóri Primex á Siglufirði.

„Við erum að reyna að fá meira út úr hverju kílói sem við seljum. Framlegðin er alla leið niður keðjuna,“ segir Ólafur Stefánsson, fjármálastjóri Primex á Siglufirði. Fyrirtækið hefur keypt rekstur SeaKlear í Evrópu ásamt vörumerki og viðskiptasamböndum.

SeaKlear er umhverfisvænt hreinsiefni fyrir sundlaugar. Virka innihaldsefni þess er kítósan sem framleitt er af líftæknifyrirtækinu Primex á Siglufirði. Samkvæmt upplýsingum fyrirtækisins er með notkun þess hægt að minnka notkun kemískra efna og klórs um allt að 40%. Það er notað í sundlaugar og heita potta og Ólafur bendir á að það henti sérstaklega vel í rafmagnshitapotta.

„Þetta er eðlilegt skref fyrir okkur, að komast nær viðskiptavinunum. Við höfum tæki og aðstöðu til að framleiða lokaafurðina,“ segir Ólafur.

Hreinsiefnið verður selt áfram undir merkjum SeaKlear, hér á landi og í Evrópu. Tandur hefur annast dreifingu hér á landi og verður svo áfram. Ólafur segir stefnt að aukinni sölu, bæði hér og erlendis. „Við höfum trú á þessari vöru. Hún virkar vel,“ segir Ólafur.

Kítósan er mikið notað í fæðubótarefni og matvæli, ekki síst til megrunar og þyngdarstjórnunar. Ólafur segir að síðustu ár hafi verið mikil aukning í notkun þess við sárameðhöndlun og er það orðinn stærsti markaðurinn ásamt fæðubótarefnum. Þá er lyfjaiðnaðurinn að skoða þetta efni alvarlega um þessar mundir. helgi@mbl.is