Kristín Halldórsdóttir fæddist 20. október 1939. Hún lést 14. júlí 2016.

Minningarathöfn fór fram 26. júlí 2016.

Við Kristín Halldórsdóttir áttum ekki margra ára samleið. En svo ágæt voru okkar kynni að hún mun alla tíð lifa í minningu minni. Þessi minning er um ljúfa manneskju sem alltaf lagði gott til málanna, ekki með bægslagangi eða framapoti heldur með hófsemd, yfirvegun, velvild og visku. Fáar manneskjur á sviði stjórnmálanna var jafngott að hafa nærri á erfiðum stundum.

Ég gleymi aldrei þeim hlýju móttökum sem Kristín auðsýndi mér þegar ég gekk til liðs við Vinstrihreyfinguna – grænt framboð. Kristín tók mér opnum örmum og var örlát á hrós og heilræði. Að njóta stuðnings þessa brautryðjanda Kvennalistans var mér ekki einungis heiður heldur dýrmæt andagift og hvatning til dáða. Það var líka svo gott að hlæja með henni. Á þessum árum var veðrasamt á Alþingi og á vettvangi flokksstjórnmálanna voru ekki allir allra alltaf. Í kringum Kristínu Halldórsdóttur var hins vegar jafnan lognblíða sem fylgdi velvild hennar og góðmennsku. Hjá henni gátu allir fundið skjól og gott veganesti. Kristín var mikils metin af mörgum enda greind, vel máli farin og ráðagóð. Aldrei mátti finna að hún hefði ofmetnast á sinni merku vegferð. Hið gagnstæða var fremur upp á teningnum. Framsækni hennar og framsýni á sviði umhverfismála og náttúruverndar verður lengi í minnum höfð og framlag hennar til kvenfrelsis- og jafnréttismála sem og annarra þjóðþrifaverkefna mun halda áfram að veita öðrum innblástur, ekki síður en hógværð hennar. Með mildri festu byggði Kristín vörður sem standast tímans tönn og fékk aðra í lið með sér til að gera slíkt hið sama.

Eftir að ég kvaddi stjórnmálin og við fjölskyldan fluttum til Frakklands fyrir rúmum þremur árum hef ég verið í litlum tengslum við fyrri veröld. Ég sá Kristínu síðast í sundlaug Seltjarnarness þegar ég kom í sumarfríi heim til Íslands. Hún var frískleg í hefðbundnum sundspretti og það var yndislegt eins og alltaf að sjá hana og spjalla. Hún var kona sem manni fannst einhvern veginn ekkert geta unnið á: mild en traust eins og klettur, óhaggandi í ljúfmennsku sinni, áreiðanleika og innsæi. En örlögin spinna stundum miskunnarlausa vefi og mannlegur máttur verður agnarsmár í hinu stóra samhengi. Kona sem átti svo skilið að njóta lífsins til fulls á efri árum, eftir að hafa skilað svo miklu til samfélagsins og okkar allra, hefur nú verið numin á brott allt of snemma. Ég verð henni ævilangt þakklát fyrir allt það sem hún gaf samfélagi okkar til heilla, sem og fyrir persónulegt örlæti hennar, heilræði og hlýju á stuttri en viðburðaríkri viðkomu minni í pólitík. Væri Alþingi skipað sextíu og þremur manneskjum á borð við Kristínu Halldórsdóttur þyrfti ekki að hafa áhyggjur af virðingu Alþingis. Henni væri vel borgið.

Eftirlifandi eiginmanni Kristínar, börnum og fjölskyldu allri votta ég innilega samúð. Minningin um mæta konu lifir í hjörtum allra þeirra sem henni kynntust.

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir.

Það er mikil eftirsjá að Kristínu Halldórsdóttur, fyrrverandi alþingiskonu. Það er vandséð hvernig á að titla Kristínu því hún lét víða að sér kveða, í réttindabaráttu kvenna, í umhverfis- og náttúruverndarmálum og í stjórnmálum almennt. Hún sat á Alþingi um árabil og áttum við þar samleið um nokkurra ára skeið. Hún var í hópi þeirra sem stóðu að því að gera Vinstrihreyfinguna grænt framboð að pólitísku afli, í upphafi innan þingsalarins, reyndar áður en flokkurinn var formlega stofnaður, og síðar sem starfsmaður og framkvæmdastjóri.

Naut hún mikils trausts enda réttsýn, skarpgreind og tillögugóð, þægileg í umgengni, heiðarleg og hreinskiptin.

Í miklu uppáhaldi hjá mér er lítið rit, Skriftamál einsetumannsins, sem út kom snemma á síðustu öld. Það er eftir afa Kristínar, Sigurjón Friðjónsson. Kristín virðist mér um sumt hafa verið lík afa sínum. Hann gegndi þingmennsku um skeið, var heimspekilega þenkjandi og efasemdarmaður um trúarbrögð og þá sérstaklega hina veraldlegu umgjörð þeirra.

Eftirfarandi texti Sigurjóns, sem fjallar um velvildina og hverju hún fær áorkað ef að baki henni býr þolinmæði og staðfesta, minnir um margt á Kristínu: „Sólin vinnur ekki á ísunum, þegar hún byrjar að hækka á lofti. En þó fer svo að lokum, að þeir renna og verða að lífslindum sumarblómans. Líkt er því varið með kærleikann og mannssál, sem bundin er í klaka blindrar eigingirni. Stöðugir velvildargeislar vinna á þeim klaka að lokum og kenna manninum hvað lífið í fyllingu sinni er.“

Öllum þótti vænt um Kristínu Halldórsdóttur og mun velvildargeislanna, sem frá henni stafaði, verða sárt saknað. Minningin mun þó áfram ylja.

Fjölskyldu og öðrum aðstandendum sendi ég góðar kveðjur.

Ögmundur Jónasson.