Írskir dagar Akranesbær er ekki lengur krafinn um kostnaðinn.
Írskir dagar Akranesbær er ekki lengur krafinn um kostnaðinn.
Skúli Halldórsson sh@mbl.is Samband íslenskra sveitarfélaga sendi 13.

Skúli Halldórsson

sh@mbl.is

Samband íslenskra sveitarfélaga sendi 13. júlí síðastliðinn fyrirspurn til allra framkvæmdastjóra sveitarfélaga um hvort sveitarfélögin hafi þurft að greiða löggæslukostnað vegna bæjarhátíða eða svipaðra viðburða sem þau standa að.

Í kjölfarið var unnin samantekt úr svörunum, sem Morgunblaðið hefur undir höndum og þar kemur m.a. fram að Akraneskaupstaður var til að mynda jafnan krafinn um milljón króna vegna löggæslu við Írska daga, eða þar til lögregluembættin á Vesturlandi voru sameinuð í eitt.

„Við náðum samkomulagi við nýja lögreglustjórann um að við myndum ekki greiða þennan kostnað,“ segir Regína Ásvaldsdóttir, bæjarstjóri Akraness, í samtali við Morgunblaðið. Hún nefnir sem dæmi að sjúkrahúsið á Akranesi sé sömuleiðis undir álagi meðan á Írskum dögum stendur. „Næsta krafa gæti þá verið frá heilbrigðisyfirvöldum, um að sveitarfélögin greiði sjúkrahúsum og heilsugæslu fyrir aukið álag á bæjarhátíðum.“

Ólík staða á Suðurnesjunum

Svokölluð fiskidagsnefnd, sem stendur árlega fyrir Fiskideginum mikla á Dalvík, var á síðasta ári í fyrsta sinn krafin um greiðslu löggæslukostnaðar, kr. 500.000. Í ár var nefndinni svo gert að greiða 600.000 krónur. „Ljóst má vera að þessi upphæð er brot af þeim aukna löggæslukostnaði sem fellur til um þessa helgi,“ segir í svari Dalvíkurbyggðar í samantektinni.

Þá hafa lögregluyfirvöld innheimt löggæslukostnað vegna Humarhátíðar á Höfn nánast frá því hún var fyrst sett á laggirnar, að því er fram kemur í svari sveitarfélagsins Hornafjarðar. „Þessi kostnaður hefur verið aðeins misjafn en hæst hefur hann farið í tæplega 600 þúsund krónur,“ segir í samantektinni. Undanfarin ár hafi hann numið 300 til 350 þúsund krónum.

Ólíku er saman að jafna ef litið er til Suðurnesja. Í svari Reykjanesbæjar segir þannig að bærinn hafi ekki þurft að greiða lögreglunni á Suðurnesjum neinar upphæðir vegna hátíðarhalda á borð við hina árlegu Ljósanótt.

Vestmannaeyjabær greiddi lögreglunni 475 þúsund krónur vegna Goslokahátíðar í ár, auk þess sem ÍBV var krafið um fjórar milljónir fyrir löggæslu á síðustu Þjóðhátíð.

Elliði Vignisson, bæjarstjóri Vestmannaeyja, segist mótfallinn þessu.

„Við erum mjög ósátt við að þetta skuli leggjast svona þungt á bæjarhátíðir á landsbyggðinni, en þegar um er að ræða hátíðir á stórhöfuðborgarsvæðinu, þá greiði ríkið það,“ segir Elliði. „Þetta er nánast eins og það væri rukkað fyrir heilsugæslu á landsbyggðinni en ekki í borginni.“

Eigi ekki við um bæjarhátíðir

Við lestur samantektar sambandsins virðist það vera nokkuð misjafnt eftir landshlutum hvort lögregla krefji sveitarfélög um greiðslu vegna bæjarhátíða. Nefnt er þar sem dæmi að sveitarfélögin á Suðurnesjum virðast aldrei hafa verið krafin um slíka greiðslu. Þá sé óhætt að fullyrða að framkvæmd sé mjög langt frá því að vera samræmd um allt land.

Í greinargerð með frumvarpi, sem varð að lögum nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, er sett fram ákveðin afmörkun á gildissviði 17. greinar laganna um tækifærisleyfi.

„Rétt er að taka fram að ákvæði þessu er ekki ætlað að ná til íþróttakappleikja eða opinberra hátíðarhalda svo sem á þjóðhátíðardaginn, Menningarnótt í Reykjavík, [...] enda eru slíkir atburðir almennt ekki í atvinnuskyni eða aðgangur seldur að þeim.“

Þá segir í nefndaráliti samgöngunefndar að undir ákvæðið falli ekki atburðir og skemmtanir á vegum sveitarfélaga og eru bæjarhátíðir nefndar sem dæmi.