Annir Stórt sýnishorn af bílaflota landsmanna má sjá við Landeyjahöfn um verslunarmannahelgi. Margir þjóðhátíðargestir geyma bíla sína þar.
Annir Stórt sýnishorn af bílaflota landsmanna má sjá við Landeyjahöfn um verslunarmannahelgi. Margir þjóðhátíðargestir geyma bíla sína þar. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Helgi Bjarnason helgi@mbl.is „Ekki er verið að slaka á öryggiskröfum varðandi mönnun skipsins heldur taka tillit til veðurfarsins á sumrin,“ segir Ólafur William Hand, upplýsingafulltrúi Eimskips sem rekur Vestmannaeyjaferjuna Herjólf.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

„Ekki er verið að slaka á öryggiskröfum varðandi mönnun skipsins heldur taka tillit til veðurfarsins á sumrin,“ segir Ólafur William Hand, upplýsingafulltrúi Eimskips sem rekur Vestmannaeyjaferjuna Herjólf.

Innanríkisráðherra hefur ákveðið að færa ferjuleiðina á milli Vestmannaeyja og Landeyjahafnar úr hafsvæði B yfir í svæði C. Það þýðir að óbreyttu að Herjólfur getur flutt fleiri farþega á tímabilinu frá 1. maí til 30. september án þess að fjölga í áhöfn. Hámarksfjöldi farþega eykst úr 390 í 525 sem miðað við fimm ferðir á dag þýðir 600-700 farþega aukningu. Óþarft er að taka fram að bíladekkið stækkar ekki þannig að ekki er hægt að taka fleiri bíla í ferð en verið hefur.

Segir Ólafur að flutningur bíla verði áfram flöskuháls. Hann hvetur ferðafólk til að skilja bíla sína eftir í Landeyjum eða jafnvel taka Strætó þangað. Yfirleitt sé óþarfi að vera með bíl í Vestmannaeyjum. Vel sé hægt að ganga þar um.

Undanþága veitt um verslunarmannahelgar

Um borð í Herjólfi er björgunarbúnaður fyrir 535 farþega auk áhafnar.

Tólf eru í áhöfn Herjólfs. Ólafur vekur athygli á því að skipið hafi haft undanþágu frá reglum um hámarksfjölda farþega um verslunarmannahelgar. Svo sé einnig nú. Þá sé fjölgað um fimm í áhöfninni auk þess sem auka mannskapur sé fenginn frá björgunarsveitum til að stjórna umferð og aðstoð við að koma farangri um borð. Hann segir að aðstæður séu sérstakar um þessa helgi, meiri gleði en aðrar helgar, og því sé þetta gert.

Eftir sé að koma í ljós þegar nýjar reglur innanríkisráðuneytisins taki gildi hvaða skilyrði verði sett varðandi mönnun á sumrin í framhaldinu.

„Að fenginni reynslu hafa stjórnvöld séð að það væri alveg gerlegt að hafa þetta fyrirkomulag allt sumarið,“ segir Ólafur og bendir á að veðurfarið sé með þeim hætti á þessari siglingaleið.

Ekki rætt um fleiri skip

Eimskip á farþegaskip sem notuð eru til ferjusiglinga og hvalaskoðunar á Breiðafirði. Þau mega vera í Vestmannaeyjasiglingum á sumrin, eftir að nýju reglurnar taka gildi. Ólafur segir að engin athugun hafi verið gerð á því hvort grundvöllur sé til að reka slík skip til hliðar við Herjólf. Skipin þjóni ákveðnu hlutverki nú og Breiðfirðingar yrðu ekki ánægðir með að vera ferjulausir. „Það er mörgum hugmyndum kastað fram. Við hlustum á allar tillögur en ákvarðanir eru ekki teknar nema af vel ígrunduðu máli. Það hefur ekki verið gert varðandi þessa nýja stöðu,“ segir Ólafur.