Forsetahjónin nýju Guðni Th. Jóhannesson og Eliza Jean Reid.
Forsetahjónin nýju Guðni Th. Jóhannesson og Eliza Jean Reid. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigtryggur Sigtryggsson sisi@mbl.is Guðni Th. Jóhannesson verður settur í embætti forseta Íslands á mánudaginn, 1. ágúst. 233 gestir verða viðstaddir athöfnina. Athöfnin hefst með helgistund í Dómkirkjunni klukkan 15.30.

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Guðni Th. Jóhannesson verður settur í embætti forseta Íslands á mánudaginn, 1. ágúst. 233 gestir verða viðstaddir athöfnina.

Athöfnin hefst með helgistund í Dómkirkjunni klukkan 15.30. Þar prédikar biskupinn yfir Íslandi, Agnes M. Sigurðardóttir. Dómkirkjuprestarnir séra Hjálmar Jónsson og séra Sveinn Valgeirsson þjóna fyrir altari. Kári Þormar dómorganisti leikur á orgel, Dómkórinn syngur og Bergþór Pálsson syngur einsöng. Hann flytur lagið „Þó þú langförull legðir“ eftir Sigvalda Kaldalóns og Stephan G. Stephansson.

Athöfn í Alþingishúsinu

Sjálf innsetningarathöfnin hefst í Alþingishúsinu klukkan 16. Handhafar forsetavalds stjórna athöfninni, Markús Sigurbjörnsson, forseti Hæstaréttar, Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra og Einar Kristinn Guðfinnsson, forseti Alþingis.

Forseti Hæstaréttar lýsir forsetakjöri og útgáfu kjörbréfs. Að því búnu vinnur hinn nýi forseti drengskaparheit og síðan fær hann kjörbréfið afhent.

Því næst ganga forsetahjónin út á svalir Alþingishússins. Þar minnist forseti Íslands fósturjarðarinnar og flytur ávarp. Í lok athafnarinnar er þjóðsöngur Íslendinga leikinn og sunginn.

Dómkórinn í Reykjavík syngur við athöfnina og Jóhanna Vigdís Arnardóttir syngur einsöng. Hún flytur lagið Lífsbókin eftir Bergþóru Árnadóttur og Laufeyju Jakobsdóttur.

Lögin við athöfnina eru valin af forsetaefninu.

Búist er við fjölda fólks á Austurvöll á mánudaginn. Athöfninni verður útvarpað svo að fólk geti fylgst með því sem fram fer. Þá verður Ríkissjónvarpið með beina útsendingu frá embættistökunni og hefst útsendingin klukkan 15:50.

Innsetningarathöfnin verður með sama hætti og tíðkast hefur frá upphafi, eða frá árinu 1945. En eins og fram hefur komið hér í blaðinu verða þó gerðar minni kröfur um klæðaburð, orður og heiðursmerki. Er það gert að ósk forsetaefnisins, Guðna Th. Jóhannessonar.

Í framhaldi af þeirri ósk aflaði forsætisráðuneytið upplýsinga um innsetningu forseta Frakklands, fleiri Evrópuþjóða og Bandaríkjanna. Leiddi sú athugun í ljós að þær athafnir voru flestar látlausari en tíðkast hefur á Íslandi fram til þessa, að sögn Ragnhildar Arnljótsdóttur ráðuneytisstjóra.

Hinn nýi forseti, Guðni Thorlacius Jóhannesson, er 48 ára gamall. Eiginkona hans er Eliza Jean Reid, fædd í Kanada. Börn þeirra eru fjögur: Duncan Tindur (f. 2007), Donald Gunnar (f. 2009), Sæþór Peter (f. 2011) og Edda Margrét (f. 2013). Guðni á einnig dótturina Rut (f. 1994) með fyrri eiginkonu sinni, Elínu Haraldsdóttur, viðskiptafræðingi og listakonu. Rut stundar nám við Háskóla Íslands.

Guðni og Eliza búa á Seltjarnarnesi. Þau munu flytja á Bessastaði innan tíðar. Þar standa nú yfir endurbætur og viðgerðir.