Enska knattspyrnan er alltaf jafn vinsæl á Íslandi. Ansi margir eiga sér uppáhaldslið í þessari „skemmtilegustu deild í heimi“ og auðvelt að krækja sér í hressilegt fótboltarifrildi í fjölskylduboðum ef sá gállinn er á mönnum.
Enska knattspyrnan er alltaf jafn vinsæl á Íslandi. Ansi margir eiga sér uppáhaldslið í þessari „skemmtilegustu deild í heimi“ og auðvelt að krækja sér í hressilegt fótboltarifrildi í fjölskylduboðum ef sá gállinn er á mönnum.

Langflestir á Íslandi styðja Liverpool og Manchester United. Það eru engin vísindi á bak við það. Ungviðið byrjar að halda með liðum sem gengur vel og flestir halda tryggð við sitt lið í gegnum súrt og sætt. Það er ekkert aumkunarverðara en að skipta um lið í enska boltanum.

„Púllarar“ eru langskemmtilegasti þjóðflokkurinn. Þeir lifa enn í þeirri trú að Liverpool sé eitt af betri liðum Evrópu og að þeir séu sjálfir langbestu stuðningsmenn veraldar. Skítt með þá staðreynd að rúmlega 26 ár eru liðin frá síðasta enska meistaratitli liðsins. Það er hægt að halda uppi frábærum samræðum við Púllara og þú finnur ekki tilfinningaríkari áhugamenn um enskan fótbolta.

Ég ólst upp við Bjarna Fel. í sjónvarpinu. Þar sýndi meistarinn vikugamla leiki úr enska boltanum og náði á undraverðan hátt að spá fyrir hver myndi skora í leiknum. Þegar varamaður kom inn á völlinn heyrðist í Bjarna; „Það er eitthvað sem segir mér að hann eigi eftir að setja mark sitt á leikinn,“ og viti menn, varamaðurinn skoraði skömmu síðar.

Þjóðverjinn Didi Hamann, sem lék um árabil í ensku deildinni, var ekkert að skafa utan af hlutunum þegar England tapaði gegn Íslandi á EM. Hamann benti á þá staðreynd að enskir áhorfendur væru stórkostlega blindir á gæði úrvalsdeildarinnar og flestir héldu að deildin væri sú sterkasta í heimi. Þjóðverjinn sagði það einfaldlega bull og sagði jafnframt að bestu lið Spánar, Ítalíu og Þýskalands væru umtalsvert mikið betri en þau ensku..

Okkur hinum er alveg sama, við bíðum bara eftir 13. ágúst með öndina í hálsinum.

Það er næsta víst.