Bjarni fæddist 14. apríl 1937. Hann lést á heimili sínu í Kaupmannahöfn 28. júní 2016.

Foreldrar hans voru Lena Bjarnadóttir frá Stykkishólmi og Róbert Bender.

Bjarni ólst upp hjá móður sinni í Stykkishólmi og síðar í Reykjavík. Þegar Lena, móðir Bjarna, giftist Guðmundi Jónssyni frá Litla-Bæ á Grímsstaðaholti fluttust þau mæðginin þangað og með tímanum eignaðist Bjarni sex systkini, þau Guðbjörgu, Braga, Kristinn, Eddu Sjöfn, Elísabetu og Hafstein. Síðar fluttist fjölskyldan á Bústaðaveg 103 í Reykjavík. Bjarni lærði til framreiðslumanns í Tjarnarkaffi og starfaði við iðnina í Naustinu, Framsóknarhúsinu og Þjóðleikhúskjallaranum.

Bjarni var þríkvæntur og eignaðist fimm börn, þau eru: Sigurbjörg, Ingunn Lena, Bjarni, Jóhanna Katrín og Jóhannes.

Bálför Bjarna hefur farið fram í Kaupmannahöfn og verður aska hans flutt til Stykkishólms.

Mig langar að minnast bróður míns, Bjarna Benders Róbertssonar, í örfáum orðum. Bjarni var myndarlegur maður, glaðvær og örlátur. Hann var orðhagur, hnyttinn í tilsvörum, hann var gleðimaður. Ég minnist hans úr æsku minni sem spennandi stóra bróður sem færði okkur ýmis ævintýri í formi gjafa og sjaldséðra ávaxta, t.d. voru perur ekki hversdagsmatur á Grímsstaðaholtinu.

Bjarni fluttist til Kaupmannahafnar þegar hann var 35 ára og starfaði þar við fag sitt um hríð. Það var gaman að heimsækja hann þangað og voru móttökurnar höfðinglegar, stórar steikur með besta meðlæti og servíetturnar í hátíðarbroti en hver er sinnar gæfu smiður og það gefur víðar á bátinn en við Grænland. Bjarni bróðir fékk sinn skammt af ágjöf um ævina.

Þegar aldurinn færist yfir og heilsan bilar hendir það oft stórlynda menn að draga sig til hlés og það gerði hann. Þá vill vinahópurinn þynnast fljótt en þeir sem eftir standa verða óendanlega verðmætir og þeim ber að þakka. Sven Arve, þakka þér fyrir þá tryggð og vináttu sem þú sýndir Bjarna bróður allt til dauðadags. Hólmgrímur Svanur Elísson, frændi okkar, sem aldrei brást honum, þakka þér.

Vertu sæll, kæri bróðir.

Bragi H. Guðmundsson.