Hvern á að hringja í? Þær Melissa McCarthy, Kate McKinnon, Kristen Wiig og Leslie Jones standa í ströngu.
Hvern á að hringja í? Þær Melissa McCarthy, Kate McKinnon, Kristen Wiig og Leslie Jones standa í ströngu.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Leikstjórn: Paul Feig. Handrit: Paul Feig og Katie Dippold. Aðalhlutverk: Melissa McCarthy, Kristen Wiig, Leslie Jones, Kate McKinnon, Chris Hemsworth og Neil Casey. Bandaríkin 2016. 116 mínútur.

Fáar myndir þessa árs hafa vakið jafnmikið umtal og endurgerð hinnar sívinsælu myndar um Draugabana (e. Ghostbusters ) frá 1984. Umræðan hefur að miklu leyti hverfst um þá staðreynd að í stað upphaflegu draugabananna, sem allir voru karlkyns, eru nú fjórar gamanleikkonur mættar í slaginn. Hvað sem þeirri umræðu líður er varla hægt að segja annað en að markaðsherferðin hafi farið út um þúfur og stiklur myndarinnar hafa að mati undirritaðs verið ákaflega fráhrindandi.

Þó að myndin sé ekki jafn slæm og ég óttaðist getur það varla talist mikil meðmæli með henni, því að ekki er því að leyna að þessi mynd er verulega misheppnuð.

Sökina er þó alls ekki að finna í kynferði aðalleikaranna, nema síður sé, heldur má hana rekja algjörlega til stórgallaðs handrits og viðvaningslegrar leikstjórnar Pauls Feig ( Bridesmaids , Heat , Spy ) og hlýtur það að koma nokkuð á óvart miðað við fyrri myndir hans.

Myndin nær aldrei neinu flugi sem gamanmynd. Misfyndnum bröndurum er dembt yfir áhorfandann, en magn er ekki sama og gæði. Sumir þeirra eru fyndnir en langflestir lenda kylliflatir. Í stað hárbeittrar íróníu og persónusköpunar upphaflegu myndarinnar eru ælur og prump í fyrirrúmi fyrri hluta myndarinnar. Það ríkti vandræðaleg þögn í salnum yfir stórum hluta myndarinnar, á meðan hún leið átakalaust hjá. Myndin er ekkert sérstaklega spennandi og ekki kitlar hún hryllingstaugarnar svo neinu nemi, fyrir utan einu sinni.

Leikstjórnin er í molum og svo virðist sem vel hafi verið fiktað í myndinni á klippiborðinu. Nokkrum sinnum tók undirritaður eftir vandræðalegum klippingum og svonefndum „samfellu-villum“ (e. continuity), þar sem augljóst var að eitthvað hafði dottið úr. Þá er stórt dansatriði klippt út á einstaklega klaufalegan hátt en aðdragandi þess skilinn eftir í myndinni, án nokkurrar ástæðu eða útskýringa.

Það er raunar á síðasta þriðjungnum sem botninn dettur endanlega úr myndinni. Á það ekki síst við um tæknibrellurnar, sem framan af eru stórfínar. Þegar kemur að tilgangslausum „lokabardaga“ á Times-torgi New York-borgar er hins vegar alveg pínlega augljóst að leikkonurnar eru einar í herbergi með grænan skjá á bak við sig að kýla út í loftið. Áhorfandinn dettur fyrir vikið út úr myndinni þegar hann ætti að vera að komast í gírinn.

Það er í þessu umhverfi sem vesalings leikararnir þurfa síðan að gera sitt besta til þess að bjarga því sem bjargað verður. Ég ætla að leyfa mér að segja að Leslie Jones standi sig langbest af aðalleikkonunum. Þegar fyrsta stiklan kom út leit út fyrir að karakter hennar, Patty Tolan, væri ekkert annað en stereótýpísk reið blökkukona. Sem betur fer er það ekki svo. Þvert á móti sýnir Patty jarðtenginguna sem hinar þrjár skortir og er þar af leiðandi sá karakter sem nær bestum tengslum við áhorfendur. Jones á þannig sum af fyndnustu atriðum myndarinnar, eins fá og þau eru.

Það vekur hins vegar athygli hversu illa þær Kristen Wiig og Melissa McCarthy ná saman á skjánum, og gæti maður haldið að þessar hæfileikaríku gamanleikkonur, sem slógu svo í gegn í Bridesmaids , hefðu aldrei leikið saman áður.

Kate McKinnon er hins vegar langlökust af fjórmenningunum. Karakter hennar, Jillian Holtzman, á að vera „tæknigúrú“ hópsins, og þar af leiðandi sérvitur með eindæmum. Kjánalæti hennar verða hins vegar fljótlega býsna þreytandi. Líkt gildir um Chris Hemsworth, sem leikur hinn nautheimska Kevin, aðstoðarmann draugabananna. Hann er fyndinn í fyrstu en öllu má ofgera. Þá er illmennið Rowan (Neil Casey) verulega illa skrifað, en hvatir hans til illmennsku eru óljósar og karakterinn er vondur til þess eins að vera vondur.

Ekki verður skilið við myndina án þess að nefna að allir upphaflegu draugabanarnir sem enn eru á lífi koma fyrir í myndinni í gestahlutverkum. Þeir leika þó ekki sömu karaktera og í fyrri myndinni, enda gerist hún í öðrum söguheimi. Innkomur þeirra eru um margt ágætar, en stöðva á stundum framvindu söguþráðarins um of.

Myndinni er augljóslega ætlað að vera fyrsta myndin í stórum myndabálki, sem hefði við fyrstu sýn átt að geta malað gull fyrir Sony. Miðað við þessa frammistöðu verður hins vegar að telja ólíklegt að framhaldsmynd verði gerð. Ég skal þó játa það í lokin, að eins döpur og mér fannst þessi, myndi ég líklega gefa slíkri framhaldsmynd tækifæri. Söguheimurinn býður nefnilega upp á tækifæri sem hægt hefði verið að nýta miklu betur. Því miður var það ekki gert hér.

Stefán Gunnar Sveinsson