Í þau örfáu skipti sem Víkverji fer í sjálfsalann í vinnunni lendir hann undantekningarlaust í miklum vandræðum. Í fyrra skiptið af tveimur sem hann lenti í nýverið fólst vandamálið í því að sjálfsalinn neitaði að taka við peningum Víkverja.

Í þau örfáu skipti sem Víkverji fer í sjálfsalann í vinnunni lendir hann undantekningarlaust í miklum vandræðum. Í fyrra skiptið af tveimur sem hann lenti í nýverið fólst vandamálið í því að sjálfsalinn neitaði að taka við peningum Víkverja.

Víkverji ákvað nefnilega með sjálfum sér að greiða aldrei með korti í þessa sjálfsala heldur nota klink til þess. Þetta er liður í því að reyna að taka sig örlítið á í fjármálunum og nota ekki kortið endalaust í einhvern óþarfa. Óþarfi telst í raun flest allt sem er í sjálfsalanum því þar er sykurinn í fyrirrúmi að undanskildum samlokunum og tyggjóinu. Hið síðara er stundum algjörlega lífsnauðsynlegt, sérstaklega fyrir vinnufélaga Víkverja.

Í fyrstu tilraun vildi sjálfsalinn ekki sjá eina mynt með hundrað krónum sem Víkverji setti staðfastlega aftur og aftur inn í raufina en alltaf kom sá hinn sami peningur út aftur. Jæja, hugsaði Víkverji með sér „ég þarf ekki að kaupa mér ropvatn í flösku á uppsprengdu verði.“ Þegar Víkverji ýtti á takka til að fá peningana aftur til baka kom ekki öll smámyntin sem hann setti í raufina. Víkverji var snuðaður.

Daginn eftir hélt Víkverji ótrauður áfram en ákvað í þetta sinn að freista þess að setja tvær 50 króna myntir í staðinn fyrir hundraðkallinn sem sjálfsalinn gubbaði út úr sér. Sigri hrósandi greip hann gullpeningana sem hann fullvissaði sig um að væru ekki alveg splunkunýir heldur búnir til árið 1987 því hann taldi sjálfum sér trú um að það væri vænlegra til vinnings.

Sjálfsalinn var ekki sama sinnis og vildi ekki sjá neina gullpeninga frá Víkverja heldur tók einungis við fjórum tíu króna peningum. Þegar Víkverji bað um að fá þessa peninga aftur til baka skilaði sjálfsalinn eingöngu 10 krónum til baka. Sjálfsalinn snuðaði Víkverja aftur. Í gremju sinni dró Víkverji fram vísakortið og pantaði sér súkkulaði sem datt ofan í hólfið og Víkverji át með samviskubiti.