Vífilfell Framleiðandi Coca-Cola.
Vífilfell Framleiðandi Coca-Cola. — Morgunblaðið/Jim Smart
Jón Þórisson jonth@mbl.is Coca-Cola European Partners (CCEP), stærsta sjálfstæða átöppunarfyrirtæki Coca-Cola í heiminum, hefur tekið yfir starfsemi Vífilfells, sem framleiðir og dreifir Coca-Cola á Íslandi.

Jón Þórisson

jonth@mbl.is

Coca-Cola European Partners (CCEP), stærsta sjálfstæða átöppunarfyrirtæki Coca-Cola í heiminum, hefur tekið yfir starfsemi Vífilfells, sem framleiðir og dreifir Coca-Cola á Íslandi. CCEP er almenningshlutafélag, skráð í New York, Amsterdam, London og á Spáni.

Fyrirtækið sérhæfir sig á sviði neytendavara í Evrópu og framleiðir, dreifir og markaðssetur óáfenga drykki. Jafnframt er það stærsta átöppunarfyrirtæki Coca-Cola í heiminum og eru vörur þess seldar til yfir 300 milljóna neytenda í Vestur-Evrópu. Þar á meðal eru lönd á borð við Andorra, Belgíu, Frakkland, Þýskaland, Bretland, Ísland, Lúxemborg, Mónakó, Holland, Noreg, Portúgal, Spán og Svíþjóð.

Í kauphöllinni í New York kemur fram að tekjur CCEP hafi numið 7 milljörðum bandarikjadala árið 2015. Það jafngildir um 840 milljörðum króna miðað við gengi bandaríkjadals í gær. Fyrir yfirtökuna var Vífilfell í eigu spænska átöppunarfyrirtækisins Cobega.

„Cobega átti stóran hlut í Coca-Cola Iberian Partners. Í gegnum samruna, meðal annars við Coca-Cola í Þýskalandi, varð svo til CCEP, sem við erum nú orðin hluti af,“ segir Stefán Magnússon, markaðsstjóri hjá Vífilfelli.„Þessar eignabreytingar auka aðgang okkar að þekkingu og gefa okkur meira afl í hráefniskaupum. Vífilfell verður áfram til og vöruframboðið eins og verið hefur.“