Egill Örn Jóhannsson rekur Forlagið ásamt föður sínum Jóhanni Páli Valdimarssyni.
Egill Örn Jóhannsson rekur Forlagið ásamt föður sínum Jóhanni Páli Valdimarssyni. — Morgunblaðið/Ófeigur
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Vilhjálmur A. Kjartansson vilhjalmur@mbl.is Forlagið er stærsta bókaútgáfa landsins en reksturinn er þó alls enginn dans á rósum. Það hefur skilað hagnaði frá upphafi en bakvið hann liggja erfiðar og oft áhættusamar ákvarðanir.

Vilhjálmur A. Kjartansson vilhjalmur@mbl.is Forlagið er stærsta bókaútgáfa landsins en reksturinn er þó alls enginn dans á rósum. Það hefur skilað hagnaði frá upphafi en bakvið hann liggja erfiðar og oft áhættusamar ákvarðanir. Ferðamenn bæta stoð undir reksturinn og aukinn áhugi á íslenskum höfundum einnig.

„Íslenski bókamarkaðurinn er samkeppnismarkaður og mjög dínamískur en engu að síður er þetta örmarkaður og reksturinn hefur verið útgefendum oft ansi erfiður,“ segir Egill Örn Jóhannsson, framkvæmdastjóri Forlagsins, en útgáfufélagið var stofnað árið 2001 og gefur út bækur m.a. undir merkjum JPV, Máls og menningar, Vöku-Helgafells og Iðunnar og rekur einnig metnaðarfulla kortaútgáfu.

„Árið 2007 keypti Mál og menning bókmenntafélag, útgáfuhluta Eddu útgáfu og sameinaði JPV útgáfu og úr varð Forlagið. Við þann gjörning eignaðist Mál og menning 50% hlut í Forlaginu og hafa þeir farið með stjórnarformennsku í félaginu síðan þá.“

Egill segir samstarfið við Mál og menningu alla tíð hafa gengið vel en hann og faðir hans, Jóhann Páll Valdimarsson, fara með daglegan rekstur Forlagsins og hafa gert frá stofnun þess en útgáfan hefur frá upphafi skilað hagnaði.

Mál og menning tengist ekkert rekstri bókabúðarinnar að sögn Egils en félagið er sjálfseignastofnun með sjálfstæða stjórn sem heyrir undir félagsráð Máls og menningar.

Hagnaður og óráðstafað eigið fé

Rekstur Forlagsins hefur gengið vel og árlegur hagnaður síðustu ára er um og yfir fimmtíu milljónir króna. Árangurinn er þó ekki sjálfgefinn og segir Egill þrotlausa vinnu liggja að baki góðum rekstri.

„Reksturinn hefur frá upphafi gengið vel, sem er fjarri því að vera sjálfgefið enda íslenskur bókamarkaður afar smár sem skapar ekki auðveld skilyrði til heilbrigðs rekstrar. Í sögulegu tilliti hefur fáum útgefendum gengið jafn vel og okkur í jafn langan tíma og raun ber vitni. Að baki þessu liggur gríðarleg vinna en við höfum alla tíð verið alveg einstaklega heppin með starfsfólk. Hæfileikarnir sem búa í starfsfólki Forlagsins eru algjörlega með ólíkindum og það líður varla sá dagur að ég hristi ekki höfuðið af undrun og aðdáun yfir samstarfsfólkinu. Og ekki má gleyma rithöfundunum okkar. Án þeirra væri Forlagið ekki til, en við erum afar stolt af öllum þeim höfundum sem við gefum út. En þetta hefur allt saman verið ákaflega skemmtilegt og ánægjulegt, þó vinnan og álagið hafi verið mikið. Það hefur varla gerst á þessum að verða 16 árum sem ég hef starfað í fyrirtækinu að ég gangi ekki með bros á vör í vinnuna, fullur tilhlökkunar yfir verkefnum dagsins.“

Þegar gluggað er betur í bókhaldið kemur í ljós að óráðstafað eigið fé Forlagsins er rúmur milljarður og segir Egill það ráðast af ýmsum þáttum.

„Já, stór hluti þessa eru viðskiptakröfur og eins eru eðli málsins samkvæmt töluverðar birgðir inni í félaginu auk uppsafnaðs hagnaðar, en hafa verður í huga að okkur hefur tekist að skila hagnaði á hverju ári frá stofnun. Við höfum kannski ekki endilega keppt að því að skila sem mestum hagnaði ár hvert heldur því að geta verið réttu megin við núllið og haldið áfram að gera það sem við höfum gert án þess að þurfa að hafa sérstakar fjárhagsáhyggjur.“

Unnið og tapað dómsmál

Samkeppniseftirlitið lagði 25 milljóna króna stjórnvaldssekt á Forlagið um mitt ár árið 2011 en stofnunin taldi að útgáfan hefði brotið gegn skilyrðum sáttar Samkeppniseftirlitsins og Forlagsins frá árinu 2008, skilyrði sem ætlað var að draga úr samkeppnishamlandi áhrifum þess á markaði.

„Auðvitað var það áfall að vera sektaðir af Samkeppniseftirlitinu, en við vorum alla tíð ósátt við málsmeðferðina og útkomuna. Það gladdi okkur því þegar helmingur málsins vannst svo fyrir Hæstarétti og sektargreiðslan var lækkuð, en þetta hefur engu að síður tekið mikinn toll af okkur. Ég veit líklega ekkert leiðinlegra og fátt hefur tekið meira á mig í starfi en að standa í þessu ströggli og mér finnst satt að segja þetta hafa verið meira og minna út í hött,“ segir Egill en hann segir markvisst hafa verið unnið að því að fá endurupptöku skilgreiningarinnar um meinta markaðsráðandi stöðu Forlagsins.

„Vonandi að það fari að hylla undir einhverja niðurstöðu í því máli. Þar er ég ansi bjartsýnn enda augljóst hverjum sem vill sjá að Forlagið er langt í frá með markaðsráðandi stöðu þó svo vissulega séum við stærst á þessum örmarkaði sem við störfum á og kunnum kannski að virðast markaðsráðandi við fyrstu sýn. Þar fyrir utan höfum við aldrei litið á okkar rekstur í sérstakri samkeppni við aðrar bókaútgáfur. Við, og allir aðrir bókaútgefendur, erum fyrst og fremst að keppa við annað afþreyingarefni um tíma almennings til neyslu afþreyingarefnis. Tæknin hefur ekki gert okkur auðveldar fyrir heldur þvert á móti. Aðgengi að afþreyingu hefur aldrei verið betra og þar höfum við sjaldan eða aldrei átt meira á brattann að sækja en nú þegar kemur að samkeppninni um tíma.“

Sáttin hamlar ekki rekstrinum

Líkt og komið hefur verið inn á þurfti Forlagið að gera sátt við Samkeppniseftirlitið árið 2008 vegna stærðar sinnar á markaði. Spurður hvort sáttin sé hamlandi fyrir reksturinn segir Egill svo ekki endilega vera.

„Mér hefur satt að segja ekki þótt það í sjálfu sér erfitt að fylgja sáttinni, eða þeim hluta hennar sem enn er í gildi. Ég er á hinn bóginn ósáttur við að Forlagið skuli vera skilgreint markaðsráðandi af Samkeppniseftirlitinu sem byggist að mínu mati á miklum misskilningi á íslenskum bókamarkaði. Það þarf ekki langa yfirlegu til þess að sjá að markaðshlutdeild Forlagsins er umtalsvert minni en Samkeppniseftirlitið fann út á sínum tíma. Sáttina urðum við aftur á móti að gera því að öðrum kosti hótuðu þeir okkur því að við gætum þurft að slíta fyrirtækið í sundur, sem hefði gengið af því dauðu á mjög skömmum tíma. Af tvennu illu urðum við því að gera sátt í ársbyrjun 2008 til þess að tryggja rekstur bókaútgáfunnar og allt höfundaverkið sem hjá okkur liggur.“

Bækur sem seljast allt árið

Útgáfufyrirtæki reka sig til lengdar illa ef þau ætla sér eingöngu að treysta á jólabókamarkaðinn. Egill segir því stefnu Forlagsins hafa verið frá upphafi að gefa út bækur sem myndu seljast allan ársins hring.

„Það loðir dálítið við þá titla sem koma út í jólabókaflóðinu að þeir vilja gleymast strax að jólunum liðnum og það því mikilvægt að gefa einnig út bækur sem geta átt lengri líftíma ef þú ætlar að stunda útgáfu til lengri tíma. Oft á tíðum eru þetta stórvirki sem seljast áfram eins og t.d. serían Jörðin, Maðurinn og Dýrin. Eins Ísland í aldanna rás, sem við gáfum út fyrstu árin eftir stofnun fyrirtækisins og kostaði okkur gífurlega fjárbindingu á sínum tíma en skilaði sér að lokum nokkuð vel.“

Ferðabækur seljast líka vel allt árið um kring að sögn Egils og hefur kiljumarkaðurinn vaxið og dafnað.

„Kiljumarkaðurinn var ekki stór þegar við ákváðum að fara inn á hann fyrir að verða 15 árum með útgáfu vinsælla bóka í kiljubroti. Það gekk frá fyrsta degi afar vel og í dag myndar hann enn eina stoðina undir rekstrinum.“

Af öllum þeim bókum og ritverkum sem Forlagið hefur gefið út ber eitt af í sölu og vinsældum í sögulegu tilliti. Það er kannski ekki á hverjum vinsældarlista öll ár en selst alltaf jafnt og þétt og hefur gert í áratugi ef ekki einhver hundruð ára. Hér er að sjálfsögðu verið að tala um Biblíuna en Forlagið gefur út þýðingu hennar frá 2007.

„Hún hefur alltaf selst prýðilega því fólk kaupir hana fyrir sjálft sig en ekki síður til gjafa, t.d. í skírnar- eða brúðkaupsgjöf. Biblían telst þó ekki til metsölubókar en hún selst vel allt árið um kring og er svo sannarlega hluti þeirra verka sem skiptir okkur miklu máli og við erum afar stolt af því að gefa hana út.“

Ferðamenn sækjast í bækur

Fjölgun erlendra ferðamanna er koma til Íslands á undanförnum árum hefur haft jákvæð áhrif á bókaútgáfu hér á landi en Egill segir tæp 10% af veltu Forlagsins koma frá sölu bóka til erlendra ferðamanna.

„Það má segja að þetta sé sá markaður sem við höfum ekki síst verið að horfa til á liðnum árum enda vöxtur í komu erlendra ferðamanna mikill og við höfum því verið markvisst að breikka úrval útgáfubóka á þessum markaði. Fyrir Forlagið skiptir þessi markaður miklu máli.“

Samkeppnin um krónur og aura ferðamanna er þó hörð og segir Egill lunda, spilastokka og alls konar ferðamannavarning keppa við bækurnar.

„Ég held að við getum alveg þokkalega við unað og það er ánægjulegt að sjá hvað breiddin er mikil því ferðamenn kaupa ekki bara hefðbundnar ljósmyndabækur og kort. Þeir leita í bækur af ýmsum toga, t.d. barnabækur, þjóðlegan fróðleik, jarðfræði og líka alls konar vegvísa og ljósmyndabækur hvers konar.“

Egill svara því þó neitandi þegar hann er spurður hvort Forlagið gefi út erlendar þýðingar á vinsælum íslenskum höfundum fyrir ferðamenn sem sækja Ísland heim.

„Við hvorki prentum fyrir þennan markað né kaupum inn þýðingar. Penninn-Eymundsson hefur aftur á móti verið duglegur að kaupa inn íslenska höfunda í erlendum þýðingum og við sjáum t.d. Sjálfstætt fólk eftir Halldór Laxness í enskri þýðingu rata iðulega á metsölulista yfir sumartímann.“

Aukinn áhugi og hærri greiðslur

Íslenska landsliðið í knattspyrnu vann hug og hjörtu fólks um allan heim með leikgleði, góðum árangri og ótrúlegum stuðningsmönnum, sem fylgdu landsliðinu á hvern leik. Bókamarkaðurinn fór ekki varhluta af velgengni landsliðsins því áhugi á öllu íslensku jókst í kjölfar Evrópumeistaramótsins í knattspyrnu.

„Það var ákaflega ánægjulegt að sjá alla þá athygli sem Ísland og Íslendingar fengu á öðrum sviðum en á knattspyrnunni meðan á EM stóð. Íslenskar bækur og rithöfundar fengu töluvert af fyrirspurnum hvaðanæva úr heiminum. Útgefendur, þýðendur og umboðsmenn sýndu áhuga á að kynna sér íslenskar bókmenntir og láta þýða og gefa út.“

Enn sem komið er er ekki búið að loka neinum samningum að sögn Egils enda ferlið oft nokkuð langt frá því þegar útgefandi óskar eftir kynningarefni og handriti þar til að verk fer í þýðingu og kemur út.

„Fyrir íslenska höfunda getur þetta verið mikilvægt í fjárhagslegu tilliti og er ekki óalgengt að fyrirframgreiðslur geti numið allt að milljón krónum og jafnvel meira. Eins fá þeir auðvitað höfundarlaun af seldum eintökum, og ófáir íslenskir höfundar hafa verið að komast í efstu sæti metsölulista víða um heim á undanförnum árum.“

Forlagið líkt og aðrar útgáfur fá svo greidda hlutdeild í hverju seldu verki líkt og höfundur. Forlagið rekur réttindastofu sem sinnir sölu útgáfuréttinda höfunda útgáfunnar og hefur gert um árabil.

Rafbókin á inni mikinn vöxt

Þrátt fyrir að hægt hafi á sölu rafbóka víða um heim og sums staðar megi tala um samdrátt telur Egill að rafbókin eigi mikið inni á Íslandi.

„Þegar horft er á íslenska markaðinn á hann vafalítið verulega mikið inni. Hann er enn sem komið er lítill en það hefur ekki síst ráðist af framboðsþættinum. Útgáfa hefur verið lítil á rafbókum en nú stendur það til mikilla bóta. Aðgengi hefur heldur ekki verið með besta móti og lesendur jafnvel þurft að fara krókaleiðir til að nálgast rafbækur á t.d. Kindle-lesbretti en núna er búið að auðvelda aðgengið og ég sé fyrir mér töluverðan vöxt í sölu rafbóka á næstu misserum á Íslandi.“

Verð á titlum kemur oft til tals þegar rafbókin er nefnd en neytendur telja gjarnan að rafbækur eigi að vera töluvert ódýrari.

„Oft á tíðum finnst mér umræðan um verð á rafbókum vera á villigötum. Prentkostnaður er að jafnaði um fjórðungur af kostnaði við útgáfu bóka. Rafbókin getur því ekki orðið mikið ódýrari en sem nemur því. Það verður einnig að hafa það í huga að bakvið útgáfu liggur margs konar kostnaður annar en prentkostnaður og síðan þarf höfundurinn að fá eitthvað greitt fyrir sína vinnu líka. Við reynum samt sem áður í langflestum tilvikum að verðleggja rafbækur Forlagsins nokkru ódýrar en prentaðar bækur.“