Fjölskyldan Við fermingu Elínar Ragnhildar síðastliðið vor.
Fjölskyldan Við fermingu Elínar Ragnhildar síðastliðið vor. — Ljósmynd/Saga Sigurðardóttir
Áslaug Björgvinsdóttir, lögfræðingur og fyrrverandi dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur, ætlar að fagna fimmtugsafmælinu með fjölskyldum og vinum í garðveislu heima hjá sér. „Mér finnst skemmtilegt að verða 50 ára.

Áslaug Björgvinsdóttir, lögfræðingur og fyrrverandi dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur, ætlar að fagna fimmtugsafmælinu með fjölskyldum og vinum í garðveislu heima hjá sér. „Mér finnst skemmtilegt að verða 50 ára. Er svo þakklát fyrir fjölskyldu og vini og það sem lífið hefur fært mér.“

Áslaug hefur stærsta hluta starfsferilsins verið við héraðsdómstólana, dómarafulltrúi, framkvæmdastjóri Dómstólaráðs og dómari árin 2010-2015 og hefur einnig sinnt fræðimennsku og háskólakennslu. Eiginmaður Áslaugar er Ragnar Árnason hdl., forstöðumaður vinnumarkaðssviðs Samtaka atvinnulífsins. Börn þeirra eru Elín Ragnhildur 13 ára, Björgvin Hugi 11 ára og Þuríður Helga 9 ára.

Áslaug sagði dómaraembætti sínu lausu á síðasta ári af prinsippástæðum og hefur síðan beitt sér fyrir umbótum á lagarammanum um dómskerfið. „Í mínum huga snýst það um að lifa og starfa í samræmi við gildin sín. Það er auðvitað langskemmtilegast þótt það sé ekki alltaf létt. Ég er hugsjónamanneskja með mikinn faglegan metnað og áhuga á samfélagsmálum auk þess sem mér finnst lögfræði mjög skemmtileg. Traust til réttarvörslukerfis er jafn mikilvægt og sterk heilbrigðis- og skólakerfi. Réttarríkið snýst um að skapa traust, öryggi og vellíðan. Þegar fólk fær ekki réttláta málsmeðferð hjá stjórnvöldum eða dómstólum skapast vantraust, óöryggi og vanlíðan ekki bara hjá viðkomandi einstaklingi heldur hópum og samfélaginu í heild. Ef fólk skynjar ekki að það njóti réttlætis og mál þess séu meðhöndluð með sanngjörnum og réttlætum hætti þurfum við að hlusta á það. Mig langar að breyta stjórnkerfinu og dómsvaldinu svo við stöndum í fararbroddi réttarríkja.“