Samkennarar mínir í stjórnmálafræðideild hafa talað fyrir auknu gagnsæi í stjórnmálum. Hæg eru heimatök, því að Margrét S. Björnsdóttir starfar í deildinni, en 2009-2013 var hún formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar.

Samkennarar mínir í stjórnmálafræðideild hafa talað fyrir auknu gagnsæi í stjórnmálum. Hæg eru heimatök, því að Margrét S. Björnsdóttir starfar í deildinni, en 2009-2013 var hún formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar. Árið 2009 reis hneykslunaralda vegna hárra styrkja fyrirtækja til stjórnmálaflokka árið 2006, áður en reglum var breytt. Þá gaf Samfylkingin þær upplýsingar, að flokkurinn hefði þegið 36 milljónir kr. frá fyrirtækjum árið 2006. Í ljós kom, þegar Ríkisendurskoðun fór löngu seinna yfir málið, að flokkurinn hafði fengið 102 milljónir kr. frá fyrirtækjum það ár. Nú ættu samkennarar mínir að spyrja Margréti, hvað valdi þessu misræmi. Þurfum við ekki aukið gagnsæi?

Fleira er hnýsilegt. Tveir aðilar styðja Samfylkinguna: Sigfúsarsjóður og Alþýðuhús Reykjavíkur ehf. Þeir eiga saman húsnæði það, sem Samfylkingin hefur til afnota, og veita henni styrki. Sigfúsarsjóður var stofnaður til að halda utan um eignir Sósíalistaflokksins, sem starfaði 1938-1968. Þótt flokksmenn væru aðeins eitthvað á annað þúsund, átti flokkurinn tvö stór hús, Tjarnargötu 20 og Skólavörðustíg 19. Hefur væntanlega eitthvað af hinum stóru styrkjum, sem Sósíalistaflokkurinn fékk frá Moskvu, verið notað til að eignast þau. Sigfúsarsjóður varð síðan fjárhagslegur bakhjarl Alþýðubandalagsins og loks Samfylkingarinnar. Hann er sjálfseignarstofnun, en hefur ekki skilað ársreikningi í meira en áratug. Hvað er mikið í sjóðnum? Hverjir ráða honum? Hvernig eru þeir valdir? Hvernig styðja þeir Samfylkinguna? Þessu getur Margrét eflaust svarað.

Alþýðuhús Reykjavíkur ehf. var stofnað til að halda utan um eignir Alþýðuflokksins, sem starfaði 1916-1998. Flokkurinn átti Iðnó og Alþýðuhúsið, sem var selt 2001 fyrir 222 milljónir kr. og breytt í Hótel 101. Að núvirði er söluverðið 478 milljónir kr. Stofnuð voru félögin Fjalar og Fjölnir til að fara með eignir Alþýðuhússins, en engar upplýsingar fást um þau. Í skjölum ríkisskattstjóra eru þau skráð erlendis, en forsvarsmenn Alþýðuhússins vísa því á bug og bera við skráningarörðugleikum. En hvað varð um 478 milljónirnar? Hvað gera Fjalar og Fjölnir? Hverjir ráða Alþýðuhúsi Reykjavíkur ehf.? Hvernig eru þeir valdir? Hvernig styðja þeir Samfylkinguna? Þessu getur Margrét eflaust svarað.

Við þurfum aukið gagnsæi.

Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar

Hannes H. Gissurarson

hannesgi@hi.is