Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Eftir Hannes Hólmstein Gissurarson: "Svo illa vill hins vegar til fyrir Aðalstein, að ég hafði þegar gert fulla grein fyrir heimildum mínum í stuttri ritdeilu við Ómar Ragnarsson."

Þegar ég skrifaði á dögunum hér í blaðið, að vinstri sinnaðir menntamenn á Vesturlöndum hefðu séð spænska borgarastríðið í svörtu og hvítu, óraði mig ekki fyrir því, að Aðalsteinn Ingólfsson listfræðingur ætti eftir að taka þessi orð til sín. Nú er liðið 41 ár frá því, að þjóðin skellihló að honum fyrir að birta í Dagblaðinu gagnrýni um málverkasýningu á Akureyri án þess að skoða hana, en hann studdist aðeins við svarthvítar ljósmyndir.

Aðalsteinn birtir í Morgunblaðinu 3. ágúst ofstopafulla árás á mig fyrir skrif mín um spænska borgarastríðið, sérstaklega loftárásina á Guernica vorið 1937. Kveður hann mig þar sammála breskum rithöfundi, David Irving, sem hefur miður gott orð á sér, meðal annars fyrir að afneita Helförinni. Aðalsteinn beitir hér gamalli rökvillu, sem við vorum vöruð við í heimspekinámi forðum, reductio ad hitlerum (Irving er vafasamur; Irving hefur skoðun x; ergo: menn með skoðun x eru jafnvafasamir og Irving).

Svo illa vill hins vegar til fyrir Aðalstein, að ég hafði þegar gert fulla grein fyrir heimildum mínum í stuttri ritdeilu við Ómar Ragnarsson: The Spanish Civil War frá 2012 eftir sagnfræðiprófessorinn Stanley Payne (bls. 211-212) og ritgerð eftir hernaðarfræðinginn James S. Corum, „The Persistent Myths of Guernica“ (Hinar þrálátu goðsagnir um Guernica), sem birtist í Military History Quarterly 2010.

Þeir Payne og Corum rekja goðsagnirnar um Guernica: að hún hafi eingöngu verið árás á saklausa borgara, gerð af þýskum flugmönnum, sem voru að æfa sig fyrir heimsstyrjöld, og að 1.600 manns hafi fallið. Sannleikurinn var sá að sögn þeirra Paynes og Corums, að bærinn var hernaðarlegt skotmark vegna brúar þar, herliðs og hergagnaverksmiðju, að árásin var gerð að undirlagi uppreisnarmanna Francos og að eitthvað á annað hundrað manns féllu í henni. Loftárásin var frekar hernaðaraðgerð en hryðjuverk.

Vitaskuld mælir enginn mannvinur loftárásum bót og því síður borgarastríðum. Lýðveldissinnar og uppreisnarmenn á Spáni voru hvorir tveggja sekir um margs konar grimmdarverk. En þótt Aðalsteinn Ingólfsson láti sér nægja að sjá spænska borgarastríðið í svörtu og hvítu eins og málverkasýninguna forðum á Akureyri, fær hann engu um það breytt, að veruleikinn er í mörgum litum.

Höfundur er prófessor í stjórnmálafræði.