Skólaganga Margir þurfa að kaupa töluvert af skólagögnum í upphafi skólárs. Hjálparstarf kirkjunnar veitir efnalitlum foreldrum hátt í þrjú hundruð grunnskólabarna styrk vegna kostnaðar sem fellur til í upphafi skólaársins og er það svipaður fjöldi og síðustu ár.
Skólaganga Margir þurfa að kaupa töluvert af skólagögnum í upphafi skólárs. Hjálparstarf kirkjunnar veitir efnalitlum foreldrum hátt í þrjú hundruð grunnskólabarna styrk vegna kostnaðar sem fellur til í upphafi skólaársins og er það svipaður fjöldi og síðustu ár. — Morgunblaðið/Golli
Þórunn Kristjánsdóttir thorunn@mbl.is Nýtt skólaár er að hefjast og er nóg að gera í ritfangaverslunum um þessar mundir.

Þórunn Kristjánsdóttir

thorunn@mbl.is

Nýtt skólaár er að hefjast og er nóg að gera í ritfangaverslunum um þessar mundir. Talsvert var að gera þegar blaðamaður kíkti við í ritfangaversluninni A4 í Skeifunni eftir hádegi, þar voru foreldrar með börnum sínum, stórum sem smáum, að kaupa skólagögn og einnig menntaskólanemendur í stórum stíl að skipta út bókum og ná sér í nýjar. Ekki var laust við að tilhlökkun væri í loftinu fyrir skólaárið.

Flestir skólar hafa gefið út innkaupalista fyrir skólaárið. Mikill munur er á kostnaði foreldra grunnskólabarna við kaup á ritföngum því sumir skólar sjá um kaup á skólagögnum fyrir efnisgjald, þ.m.t. Álfhólsskóli í Kópavogi. Foreldrar sem blaðamaður ræddi við voru flestir sammála um að slíkt fyrirkomulag kæmi sér vel, það væri hvort tveggja léttara fyrir budduna og sparaði þeim sporin.

Í vikunni lögðu 10 þingmenn stjórnarandstöðunnar fram frumvarp að breytingum á grunnskólalögum þess efnis að felldur verði út málsliður þar sem fram kemur að opinberum aðilum sé ekki skylt að leggja nemendum til gögn til persónulegra nota, svo sem ritföng og pappír.

Foreldrar geta fengið aðstoð

Ekki eru allir foreldrar sem geta keypt skólagögn fyrir börn sín og þurfa sumir að leita til hjálparsamtaka. Mæðrastyrksnefnd og Hjálparstarf kirkjunnar aðstoða þá sem það þurfa. Spurn eftir aðstoð og úthlutun skólagagna er svipuð milli ára.

Hjálparstarf kirkjunnar veitir efnalitlum foreldrum hátt í þrjú hundruð grunnskólabarna styrk vegna kostnaðar sem fellur til í upphafi skólaársins og er það svipaður fjöldi og síðustu ár. Það veitir einnig nemendum í framhaldsskóla stuðning allt skólaárið m.a. til kaupa á skólabókum, greiðslu skólagjalda o.s.frv. Að sögn Vilborgar Oddsdóttur, félagsráðgjafa hjá Hjálparstarfi kirkjunnar, liggur ekki fyrir endanlegur fjöldi grunnskólabarna sem fá styrk því enn er hægt að leita til eftir aðstoð.

Dregið hefur úr aðstoð við nemendur á menntaskólaaldri síðustu ár til samanburðar við árin eftir hrun. Skýringin er sú að ekki var næga vinnu að fá fyrir þennan hóp. „Þetta er breytt í dag. Núna eru krakkar á þessum aldri með vinnu og geta jafnvel tekið meiri þátt í að greiða skólagjöld og bækur,“ segir Vilborg og bætir við „við finnum vel fyrir því hvernig hjartað slær í efnahagslífinu.“