[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
ÓL fatlaðra Kristján Jónsson kris@mbl.is Ekki mun liggja fyrir fyrr en í lok mánaðarins í fyrsta lagi hvort Ísland geti sent fleiri keppendur á Ólympíumót fatlaðra, Paralympics, í Ríó í byrjun september.

ÓL fatlaðra

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Ekki mun liggja fyrir fyrr en í lok mánaðarins í fyrsta lagi hvort Ísland geti sent fleiri keppendur á Ólympíumót fatlaðra, Paralympics, í Ríó í byrjun september. Sá möguleiki er fyrir hendi þar sem Alþjóðaólympíuhreyfing fatlaðra tók þá ákvörðun að banna alla rússneska keppendur vegna gruns um kerfisbundið lyfjamisferli. Til stóð að Rússar ættu 267 keppendur á Paralympics og því losna töluvert mörg sæti á leikunum.

„Við óskuðum eftir aukasætum á Paralympics fyrir fjóra einstaklinga sem við fengum ekki. Mögulega gæti einn af þessum fjórum komist inn eftir að þessi staða er komin upp. Auðvitað eru það þeir einstaklingar sem voru næst þeim ólympíulágmörkum sem sett voru. Við þurfum bara að bíða og sjá. 169 þjóðir eru örugglega að bíða eftir sama símtali og við. Ef við fáum slíkt símtal þá munum við segja já að sjálfsögðu en við vitum það ekki fyrr en í lok ágúst eða jafnvel í byrjun september. Þá þyrfti að hafa hraðar hendur til að klæða viðkomandi upp og koma upp í flugvél,“ sagði Ólafur Magnússon, framkvæmdastjóri afrekssviðs, þegar Morgunblaðið ræddi við hann. Ekki liggur því fyrir hverjir fá sæti Rússanna fyrr en örfáum dögum fyrir setningarathöfnina.

„Já, þetta verður bara korter í mót. Það er ekkert flóknara.“

Rússar áfrýjuðu

Rússar eru ekki sáttir við niðurstöðuna og hafa áfrýjað málinu. Áfrýjun þeirra á eftir að taka fyrir en til stendur að gera það hjá Alþjóðaíþróttadómstólnum 21. ágúst. Þessar refsiaðgerðir eru harðari en á Ólympíuleikunum sem nú standa yfir. Þar fengu Rússar að keppa í ýmsum greinum þótt mörgum þeirra væri óheimilt að vera með í öðrum greinum, eins og til dæmis í frjálsum íþróttum.

Kom þessi harða afstaða gegn Rússunum Ólafi á óvart?

„Nei, ekki miðað við hvaða tökum Alþjóðaólympíuhreyfing fatlaðra hefur tekið mál áður. Árið 2000 komst upp um svindl í kringum þroskahamlaða. Spánverjar notuðu þá ófatlaða íþróttamenn í körfubolta og borðtennis. Þegar það komst upp voru bæði Spánverjar og Alþjóðasamtök þroskahamlaðra sett í bann og stóð bannið í tólf ár. Þessi afstaða kom því ekki á óvart. Þeir eru grjótharðir í ólympíuhreyfingu fatlaðra. Þetta eru hræðileg örlög fyrir fatlaða íþróttamenn í Rússlandi sem eru heiðarlegir. Maður sárvorkennir þeim að vera útilokaðir. En miðað við það sem maður hefur lesið og kynnst, þá virðist hafa verið lína að ofan hjá Rússum og niður eftir öllu þar sem lyfjamisnotkun var í gangi, bæði hjá fötluðum og ófötluðum. Því miður,“ sagði Ólafur ennfremur.

Ísland sendir fimm keppendur á Ólympíumótið sem fram fer 7.-18. september. Jón Margeir Sverrisson, Sonja Sigurðardóttir og Thelma Björg Björnsdóttir keppa í sundi, Helgi Sveinsson í spjótkasti og Þorsteinn Halldórsson í bogfimi.