Eyjólfur Hjálmsson fæddist 13. október 1939. Hann lést 19. júlí 2016.

Útför Eyjólfs fór fram 4. ágúst 2016.

11 ára gamall renndi ég í hlaðið á Þingnesi, ásamt föður mínum, og þar tóku á móti mér Petrún Magnúsdóttir og sonur hennar, Eyjólfur Hjálmsson. Eyjólfur, eða Eyi eins og hann var jafnan kallaður, stóð þarna á gúmmískónum og virti þennan dreng fyrir sér, leit á Sveinbjörn, sem þá var á sínu síðasta sumri sem „strákur í sveit“ og gaf þegjandalegt samþykki sitt fyrir þessum ráðahag. Þarna hófust kynni okkar Eyja og næstu fimm sumur var ég sveitapiltur í Þingnesi.

Eyi var einstakur maður, fámáll en athugull og vissi sínu viti. Hann var einstakur snillingur að fást við hvers konar rafmagnstæki og tól enda eyddi hann ófáum stundum að gera við útvörp og sjónvörp uppi á lofti í Þingnesi. Eyi kenndi mér margt, en einkum kenndi hann mér að trúa á sjálfan mig, að allt væri gerlegt. Tólf ára gamall setti ég saman útvarp undir leiðsögn Eyja og ég held að það sé það augnablik í mínu lífi sem ég hef verið hvað stoltastur þegar ég heyrði í Jóni Múla úr þessu óhrjálega útvarpi. Ég veit ekki hversu marga símastaura Eyi lét mig klifra upp í til að hann gæti lagað rafmagns- eða símalínur eða fundið út hvar bilanir væru. Ótalmörg voru húsþökin sem ég fór upp á til að setja upp sjónvarpsloftnet og tengja loftnetskapla með honum. Það var ósjaldan að við þáðum kaffi eftir uppsetningu á loftnetum hjá bændum Borgarfjarðar, að húsráðendur komu með eitthvert rafmagnstækið sem var bilað og Eyi sendi mig eftir verkfæratöskunni og oftar en ekki gerði hann við tækið á staðnum. Skipti þá engu hvort um var að ræða brauðrist eða þvottavél, ef bilunin var rafmagnslegs eðlis, þá gat Eyi gert við tækið.

Eyi vann mikið fyrir Búnaðarsambandið og oft saknaði ég hans á vorin þegar hann var að „tæta“ á kvöldin og nóttinni og svaf svo fram eftir á daginn. Þá vantaði eitthvað tilfinnanlega í tilveruna í sveitinni og bústörfin urðu manni þyngri í skauti.

Það var alltaf létt yfir Eyja og þegar það myndaðist stund milli stríða í sveitastörfunum, þá skapaðist spennuþrungin stund þegar hann arkaði í átti að Skódanum og maður velti því fyrir sér hvort maður fengi að fara með í leiðangur dagsins eða ekki. Það var hátindur dagsins ef það gekk eftir. Oftar en ekki var ferðinni heitið að félagsheimilinu Brún, en hann var umsjónarmaður félagsheimilisins. Bókasafn var uppi á lofti í Brún og það var opið eitt kvöld í viku. Eyi átti það til að benda manni á áhugaverðar bækur eins og sjóræningjasögur Rafaels Sabatini og Sígildar sögur Iðunnar. Sveitaböll og leiksýningar voru haldin reglulega í Brún og eyddum við mörgum klukkutímunum í kringum hvern slíkan viðburð, við undirbúning og uppröðun borða og stóla á undan og þrifum á eftir.

Eyi var ekki mikið fyrir að flagga sér og sínu og í huga mér kemur þetta erindi úr Hávamálum sem mér finnst eiga vel við.

Deyr fé,

deyja frændur,

deyr sjálfur ið sama;

en orðstír

deyr aldregi,

hveim er sér góðan getur.

Í hjarta mínu mun ég alltaf geyma þau forréttindi að hafa kynnst Eyjólfi Hjálmssyni og megi minning hans lifa í hjörtum okkar sem þekktum hann. Hvíl í friði, kæri vinur.

Hjalti Kristjánsson.