Steinunn Jónsdóttir fæddist 19. ágúst 1961. Hún lést 11. ágúst 2016.

Útför Steinunnar fór fram 19. ágúst 2016.

Elsku Steinunn okkar, þú varst í miklu uppáhaldi hjá okkur fjölskyldunni. Ljúfmennska þín geislaði af þér. Þú varst vinur vina þinna.

Vinátta okkar byrjaði í Skógarásnum út frá vináttu Söru og Laufeyjar og síðan þá höfum við alltaf verið óaðskiljanleg. Við brölluðum margt skemmtilegt saman, fórum í ferðalög og sumarbústaðarferðir sem eru nú yndislegar minningar í hjörtum okkar.

Við minnumst þín með þakklæti og hlýju. Í huga okkar mun minning þín lifa.

Hvíldu í friði, elsku Steinunn okkar, þín verður sárt saknað.

Við vottum fjölskyldu Steinunnar og aðstandendum hennar dýpstu samúð.

Ég sendi þér kæra kveðju,

nú komin er lífsins nótt,

þig umvefji blessun og bænir,

ég bið að þú sofir rótt.

Þó svíði sorg mitt hjarta

þá sælt er að vita af því,

þú laus ert úr veikinda viðjum,

þín veröld er björt á ný.

Ég þakka þau ár sem ég átti

þá auðnu að hafa þig hér,

og það er svo margs að minnast,

svo margt sem um hug minn fer,

þó þú sért horfinn úr heimi,

ég hitti þig ekki um hríð,

þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sigurðardóttir.)

Takk fyrir allt.

Þínar vinkonur,

Ólafía, Thelma Lind

og Laufey.

Í dag kveðjum við góða vinkonu og félaga, hana Steinunni okkar.

Steinunn var kröftug og drífandi og átti frumkvæði að stofnun Lóanna. Lóurnar eru félagsskapur starfsfólks Selásskóla sem stundar golf. Undanfarin sex sumur höfum við komið saman og átt góðar stundir á golfvellinum. Frá upphafi hélt Steinunn utan um hópinn af röggsemi og kærleika.

Á hverju sumri er haldið golfmót og gera Lóurnar sér þá glaðan dag með góðum mat og samveru eftir mótið. Þar var Steinunn hrókur alls fagnaðar með sinn dillandi hlátur og fallega bros.

Hún sá um að halda dagbók um allt það sem á daga félagsins dreif og er það okkur í Lóunum mikill fengur að eiga þessar góðu minningar sem þar eru skráðar.

Við kveðjum Steinunni með söknuði og höldum áfram í anda hennar þar sem gleðin er höfð að leiðarljósi.

Hugur okkar er hjá börnum Steinunnar og fjölskyldunni á þessum erfiðu tímum. Við sendum þeim okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Golffélagar í Lóunum,

Anna G., Edda, Guðbjörg, Hlíf, Margrét, Soffía, Steinunn Þ., Stefanía, Valgerður og Þórunn.

Ágústmyrkrið minnir okkur á að sumri er tekið að halla og breytingar verða.

Samstarfskona okkar til fjölmargra ára hefur nú kvatt langt fyrir aldur fram. Steinunn var afar hæfileikarík, metnaðarfull og framúrskarandi kennari. Hún leysti öll þau verkefni sem henni voru falin af mikilli alúð og útsjónarsemi.

Það eru forréttindi að hafa starfað með Steinunni sem ævinlega var tilbúin í spennandi og krefjandi verkefni. Hún var ávallt reiðubúin í nýjar áskoranir og lagði mikinn metnað í að mennta sig samhliða vinnu sinni, ekki síst til að leita lausna sem kæmu nemendum hennar sem best. Í raun var Steinunn alltaf að kenna okkur eitthvað.

Veikindum sínum tók Steinunn með miklu æðruleysi og talaði um mikilvægi þess að vera hamingjusamur, hugsa jákvætt og njóta lífsins.

Við þökkum henni innilega góða og gefandi samfylgd og skólinn er lánsamur að hafa notið starfskrafta hennar.

Börnum Steinunnar, Kristínu, Ómari og Söru, sendum við hugheilar samúðarkveðjur.

Fyrir hönd samstarfsfólks Selásskóla,

Sigfús Grétarsson,

skólastjóri.

Steinunn hefur verið í lífi mínu í rúmlega tuttugu ár, allt frá því að við Kristín dóttir hennar urðum bestu vinkonur. Það er með mikilli sorg sem ég kveð hana hér í dag en þó að sorgin sé mikil hugga ég mig við það að ég var ein af þeim heppnu.

Ég fékk að kynnast henni, skemmta mér með henni og ekki síst að deila með henni áhugamáli – biluðum áhuga á púsluspilum.

Við Kristín urðum vinkonur í kringum ellefu ára aldurinn, við vorum mikið heima hjá Steinunni á árunum sem fylgdu, lærðum smá en horfðum aðallega á tónlistarmyndbönd og tókum hávær hlátursköst í tíma og ótíma.

Ég hugsa stundum að þessi hlátursköst hafi verið truflandi en alltaf var Steinunn tilbúin að hafa okkur heima og spjalla við okkur. Hún var líka alltaf tilbúin að hjálpa okkur, til dæmis við að mála okkur fyrir böllin.

Það er ótrúlegt hvað litlir atburðir geta breytt miklu. Það að við Kristín urðum bestu vinkonur olli því að fjölskyldur okkar tengdust á fleiri en einn hátt.

Steinunn var umsjónarkennari eldri bróður míns, en hann og Ómar sonur Steinunnar voru mikið saman á yngri árum. Eins voru Sara yngsta dóttir hennar og yngri bróðir minn saman í leikskóla.

Samgangur á milli fjölskyldna okkar var því mikill, ekki síst á sumrin þar sem við áttum sumarbústað í nágrenni við sumarbústað Jóns og Katrínar, foreldra Steinunnar.

Í seinni tíð hafa samskiptin því miður minnkað en voru þó alltaf jafn notaleg.

Elsku Kristín, Ómar og Sara, það er aldrei auðvelt að missa nákominn ættingja og hvað þá móður sína.

Hún var tekin allt of ung en minning hennar mun lifa áfram hjá öllum þeim sem hún snerti og ekki síst hjá ykkur systkinunum. Þið hafið erft alla bestu kosti hennar og hún var og mun alltaf vera mjög stolt af ykkur.

Ég vil votta ykkur og foreldrum hennar og systur mína innilegustu samúð.

Arna Garðarsdóttir.