Ég hef sjaldan séð jafneinlægan koss og þann sem þjálfarinn skrautlegi Evgeni Trefilov smellti á markvörð sinn í miðju viðtali við fjölmiðla, eftir að Rússar slógu Noreg út og komust í úrslitaleik handbolta kvenna á Ólympíuleikunum. Sá var í skýjunum.
Ég hef sjaldan séð jafneinlægan koss og þann sem þjálfarinn skrautlegi Evgeni Trefilov smellti á markvörð sinn í miðju viðtali við fjölmiðla, eftir að Rússar slógu Noreg út og komust í úrslitaleik handbolta kvenna á Ólympíuleikunum. Sá var í skýjunum. Trefilov, sem maður hefur oftar en einu sinni séð öskra hreinlega á leikmenn sína og dómara, hundfúlan, var í skýjunum með glæsilegt afrek síns liðs. Hann reytti af sér brandarana og gat ekki hætt að brosa.

Við hlið Trefilovs stóð svo Camilla Herrem, grátandi, eftir að hafa skotið fram hjá í síðasta skoti leiksins og mistekist að jafna metin fyrir Noreg. Fleiri úr norska liðinu stóðu þarna og felldu tár, eftir að möguleikinn á að verja ólympíumeistaratitilinn var úr sögunni. Íslendingurinn á svæðinu, Þórir Hergeirsson, var sá eini sem virtist í sæmilegu jafnvægi. Alla vega var langt í einhver tár.

En þetta er meðal þess sem gerir Ólympíuleikana að einhverju sem maður bíður eftir í fjögur ár. Þessar miklu, hreinu tilfinningar íþróttafólks sem hefur lagt allt í sölurnar. Maður getur ekki horft á og verið bara sama. Það er óhjákvæmilegt að gleðjast með sigurvegaranum en finna til með þeim sem tapar, svo lengi sem viðkomandi gerir það með nokkurri sæmd.