Verk Ingibjörg Sigurjónsdóttir opnar sýninguna <strong> Þetta er okkar fyrsta verk</strong> .
Verk Ingibjörg Sigurjónsdóttir opnar sýninguna Þetta er okkar fyrsta verk . — Morgunblaðið/Sigurgeir S.
Í verkum hennar leynist tilfinning um örfínt rými sem er til staðar milli tveggja hluta. Hún skúlptúrgerir það ljóðræna og hið óhlutbundna í leit sinni að sannleikanum og fegurðinni.

Í verkum hennar leynist tilfinning um örfínt rými sem er til staðar milli tveggja hluta. Hún skúlptúrgerir það ljóðræna og hið óhlutbundna í leit sinni að sannleikanum og fegurðinni. Svona er sýningu Ingibjargar Sigurjónsdóttur, Þetta er okkar fyrsta verk , lýst í tilkynningu en sýningin opnar í dag kl. 17 í D-sal Hafnarhússins. Sýningarstjóri er Bryndís Erla Hjálmarsdóttir og stendur sýningin yfir til 13. október 2016.

Ingibjörg er fjórði listamaðurinn til að sýna í D-salnum það sem af er ári 2016 en þar eru að jafnaði sýnd verk eftir listamenn sem ekki hafa áður haldið einkasýningar í stærri söfnum landsins. Markmið sýningaraðarinnar er að gefa efnilegum listamönnum tækifæri til að vinna innan veggja safnsins og beina athygli gesta að nýjum og áhugaverðum hræringum innan listaheimsins, eins og fram kemur á vefsíðu Listasafns Reykjavíkur.

Ingibjörg er fædd árið 1985 í Reykjavík og lauk BA-gráðu í myndlistardeild Listaháskóla Íslands árið 2010 og hefur tekið þátt í sýningum, gjörningum og öðrum verkefnum hér á landi og einnig á erlendri grundu. Ingibjörg býr í Reykjavík og starfar þar einnig.

Ókeypis leiðsögn um safnið

Listasafn Reykjavíkur býður einnig upp á ókeypis leiðsögn um Hafnarhúsið með starfsfólki fræðsludeildar safnsins, í tilefni Menningarnætur, sem stendur frá kl. 18 til 22.