Skíða-Hilmar Í skíðabrekkunum í Austurríki síðasta vetur þar sem Hilmar vann sig inn á HM.
Skíða-Hilmar Í skíðabrekkunum í Austurríki síðasta vetur þar sem Hilmar vann sig inn á HM. — Ljósmynd/Víkingur R.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Skíði/golf Kristján Jónsson kris@mbl.is Hilmar Snær Örvarsson er geysilega efnilegur íþróttamaður úr Garðabænum.

Skíði/golf

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Hilmar Snær Örvarsson er geysilega efnilegur íþróttamaður úr Garðabænum. Hilmar hefur sett stefnuna á næsta Vetrarólympíumót fatlaðra þar sem hann á góða möguleika á að vinna sér inn keppnisrétt í alpagreinum þrátt fyrir að vera aðeins 16 ára gamall. Er skíðaíþróttin í forgangi hjá honum en Hilmar er einnig orðinn meistaraflokkskylfingur í golfi, ef miðað er við forgjöf. Er golfið þó eins konar aukagrein hjá Hilmari, í það minnsta eins og staðan er núna.

„Skíðaíþróttin er mín aðalíþrótt og þar á ég meiri möguleika. Mamma er sammála því. Ég er fínn þar. Ég æfi svig og stórsvig enda hvorki hægt að æfa risasvig né brun á Íslandi,“ sagði Hilmar þegar Morgunblaðið spjallaði við hann um íþróttaiðkun hans. Hilmar er með gervifót og skíðar á einu skíði. Hann þykir mikið efni og er að sögn þjálfarans, Þórðar Georgs Hjörleifssonar, að verða mjög góður hvað varðar tæknina. Svigið er hans sterkasta grein en einnig keppir Hilmar í stórsvigi. Hilmar hefur nú þegar unnið sér inn keppnisrétt á HM fatlaðra í alpagreinum næsta vetur.

„Ég keppti erlendis síðasta vetur og komst þá inn á heimslista. Ég get þá farið á fleiri alþjóðleg mót og fer líklega á nokkur mót í vetur. Alla vega til Austurríkis og mögulega til Noregs. Ég þarf reyndar líka að vera duglegur að læra með þessu öllu því ég verð svolítið mikið í burtu,“ sagði Hilmar sem er að hefja nám í Verslunarskólanum.

Fékk krabbamein 8 ára

Hilmar segist hafa byrjað sinn íþróttaferil í fótbolta og handbolta. Þegar hann var einungis 8 ára bankaði vágesturinn krabbamein upp á hjá drengnum. Meinið fannst í hné og svo fór að aflima þurfti Hilmar til að koma í veg fyrir að meinið myndi dreifa sér frekar um líkamann. Fékk hann gervifót og gekkst undir aðgerð sem hljómar nokkuð flókin fyrir leikmann. Ökklinn er notaður sem hné, snýr þá öfugt, og hulsa utan um hann. Gerir það Hilmari kleift að ganga eins eðlilega og kostur er að hans sögn. Tók það ekki langan tíma að þjálfa sig upp í það ástand að ná árangri í íþróttum eftir þetta inngrip í líkamsstarfssemina?

„Jú jú. Ég var í meðferð í níu mánuði og var um það bil eitt ár að venjast fætinum. Auk þess var ég í hjólastól og á hækjum í þrjá mánuði. Ég var í kringum níu ára aldurinn þegar ég fékk fót. Tók það svolítinn tíma að venjast honum og ná að ganga eins og ég vildi. Ég var fyrst hjá sjúkraþjálfurunum Unu B. Guðjónsdóttur í Garðabæ og Gauta Grétarssyni í Reykjavík. Ég vann með þeim í liðleika og mörgu fleiru. Auk þess er stoðtækjafræðingur hjá Össuri sem er að hjálpa mér að smíða sem besta fætur.“

Ýmsir möguleikar í stöðunni

Spurður hvort Hilmar hafi gert sér grein fyrir því að hann gæti verið í íþróttum á fullu eftir að hafa fengið gervifót sagðist hann ekki hafa velt því mikið fyrir sér enda aðeins 8 ára gamall. Hann segir foreldra sína, Hrönn Harðardóttur og Jón Örvar Kristinsson, þó hafa verið með það allt á hreinu enda starf Íþróttasambands fatlaðra og aðildarfélaga orðið býsna umfangsmikið.

„Ég vissi svo sem að ég myndi ekki halda áfram í fótbolta eða handbolta. Ég hugsaði ekki mikið um framtíð mína í íþróttum á þeim tímapunkti en mamma vissi alltaf að ég gæti stundað íþróttir ef ég vildi. Ég fór í þrjár íþróttagreinar en það var of mikið. Ég hætti í körfubolta og hélt áfram á skíðum og í golfi,“ útskýrði Hilmar.

Lék alla hringina undir 80

Hilmar byrjaði að stunda bæði skíði og golf um tíu ára aldurinn og framfarirnar hafa því verið hraðar fyrst hann er gjaldgengur á HM fullorðinna á skíðum og kominn niður fyrir 4 í forgjöf í golfi, aðeins 16 ára. Þótt Hilmar muni næstu árin leggja aðaláherslu á að standa sig í skíðabrekkunum þá er spilamennska hans á golfvellinum einnig athyglisverð.

Hilmar lék til að mynda alla fjóra hringina á Íslandsmótinu í golfi (fullorðinna) á Akureyri undir 80 höggum. Hringina lék hann á 79, 77, 74 og 78 höggum af hvítum meistaraflokksteigum. Fór hann undir 4 í forgjöf með frammistöðu sinni á mótinu og komst í gegnum niðurskurð keppenda. „Já já ég spila mikið á sumrin, nánast á hverjum degi. Ég vinn auk þess við námskeið í barnastarfinu hjá GKG. Þá erum við frá 9 til 16, annaðhvort að vinna eða æfa. Það hentar vel til þess að bæta sig í golfi,“ sagði Hilmar Snær Örvarsson enn fremur við Morgunblaðið en forvitnilegt verður að fylgjast með honum í sviginu á HM næsta vetur.