Urgur Formaður Sjálfstæðisflokksins og nokkrir þingmenn flokksins hafa verið gagnrýnin á þá ákvörðun félagsmálaráðherra að sitja hjá við atkvæðagreiðslu á Alþingi um fjárhagsáætlun ríkisins til næstu fimm ára.
Urgur Formaður Sjálfstæðisflokksins og nokkrir þingmenn flokksins hafa verið gagnrýnin á þá ákvörðun félagsmálaráðherra að sitja hjá við atkvæðagreiðslu á Alþingi um fjárhagsáætlun ríkisins til næstu fimm ára. — Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Agnes Bragadóttir agnes@mbl.is Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra segir „óheppilegt að ríkisstjórnin standi ekki öll sameinuð að baki jafn jákvæðri fjármálaáætlun“ og samþykkt var á Alþingi í fyrradag.

Agnes Bragadóttir

agnes@mbl.is

Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra segir „óheppilegt að ríkisstjórnin standi ekki öll sameinuð að baki jafn jákvæðri fjármálaáætlun“ og samþykkt var á Alþingi í fyrradag.

„Svona hjáseta ráðherra við atkvæðagreiðslu um stórt mál ríkisstjórnarinnar er óvenjuleg en hún kom ekki á óvart. Eins og Eygló hefur sjálf sagt setti hún fyrirvara við afgreiðslu á fjármálaáætluninni út úr ríkisstjórn, þar sem henni fannst sem hennar málum væri ekki gert nægilega hátt undir höfði,“ sagði forsætisráðherra í samtali við Morgunblaðið í gær.

Sigurður Ingi segir að nægt svigrúm sé í fjármálaáætluninni, til að taka m.a. tillit til hugmynda sem félagsmálaráðherra hafi lagt fram. „Annars vegar í varasjóði og hins vegar vegna þeirrar staðreyndar að á þessu ári hefur gengið enn betur en þau gögn gáfu til kynna sem unnið var með þegar fjármálaáætlunin var gerð. Svigrúm okkar er því mun meira en áætlunin sem samþykkt var á þinginu í gær ber með sér,“ sagði Sigurður Ingi.

Eygló Harðardóttir félagsmálaráðherra segist ekki hafa hugleitt afsögn, en í kjölfar þess að hún sat hjá í atkvæðagreiðslu um fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar á Alþingi í fyrradag hafa ákveðnir þingmenn Sjálfstæðisflokksins gagnrýnt hana harðlega.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir um hjásetu ráðherrans: „Það er ekki til þess fallið að treysta samstarfið milli stjórnarflokka í samsteypustjórn að ráðherra styðji ekki stóru málin. Þetta er næsti bær við að styðja ekki fjárlög.“

„Ég sé það ekki fyrir mér að svona nokkuð gæti gerst hjá okkur í Sjálfstæðisflokknum. Hvorki ég né þingflokkurinn myndum líða það. Við leiðum ágreiningsmál til lykta innan flokksins,“ sagði Bjarni í samtali við Morgunblaðið í gær.

„Það verður á endanum að vera ákvörðun þess flokks sem hún situr fyrir í ríkisstjórn,“ sagði Bjarni þegar hann var spurður hvort hann teldi að Eygló Harðardóttir gæti setið áfram sem ráðherra eftir hjásetuna.

Afstaðan löngu kunn

Félagsmálaráðherra var í gær spurð hvað hún segði um harða gagnrýni þingmanna Sjálfstæðisflokksins. „Þetta er mjög einkennilegt. Afstaða mín í þessum málum ætti ekki að koma neinum á óvart. Hún lá fyrir þegar málið var afgreitt út úr ríkisstjórn og ég ítrekaði hana þegar málið fór í gegnum þingflokkinn, auk þess sem ég skrifaði grein um afstöðu mína í sumar,“ sagði Eygló.

- En nú ert þú hluti af þessari ríkisstjórn tveggja flokka. Er það ekki sérkennilegt, svo ekki sé meira sagt, þegar þú skerð þig úr ráðherrahópnum og greiðir ekki atkvæði þegar verið er að afgreiða fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar til næstu fimm ára? Hvernig heldur þú að stjórnarsamstarfið væri ef allir ráðherrarnir létu eins og þú?

„Það liggur fyrir að við höfum starfað allt þetta kjörtímabil í samræmi við gildandi stjórnarsáttmála. Ég hef gert mitt allra besta, til þess að fylgja honum eftir og hann hefur skilað gífurlega miklum árangri.

Það liggur hins vegar ekkert fyrir á hvaða grunni verður starfað á næsta kjörtímabili. Það hljóta kjósendur og almenningur í landinu að taka ákvörðun um,“ sagði Eygló.

Hef starfað af trúmennsku

- Hvaða áhrif heldur þú að það hefði á stjórnarsamstarfið ef allir ráðherrar ríkisstjórnarinnar tækju eigin óskalista fram yfir það sem þegar er búið að samþykkja í ríkisstjórn?

„Það hefur legið fyrir frá því að málið fór í gegnum ríkisstjórn að ég hefði þennan fyrirvara við ríkisfjármálaáætlunina og ég teldi að hún endurspeglaði ekki þær áherslur sem við höfum haft samkvæmt gildandi stjórnarsáttmála. Það sem ég segi við ríkisstjórnarborðið gildir líka um það sem ég segi í þinginu og öfugt,“ sagði Eygló.

- Telur þú að þér sé sætt sem ráðherra í þessari ríkisstjórn eftir hjásetu þína?

„Mér hefur verið sætt frá því að ég upplýsti um þennan fyrirvara minn og hef starfað af trúmennsku sem ráðherra félags- og húsnæðismála og staðið vörð um mína málaflokka og ég mun halda áfram að gera það,“ sagði Eygló.

Popúlismi vegna kosninga?

- Gagnrýnendur þínir hafa haldið því fram að þú sért með þessari afstöðu þinni að leika leik popúlistans, að reyna að höfða sérstaklega til öryrkja, ellilífeyrisþega og barnafólks, nú í aðdraganda kosninga. Hvað segir þú um slíka gagnrýni?

„Ég held að flestir hafi tekið eftir því að ég hef reynt að berjast fyrir bættum lífskjörum og ég hef allt þetta kjörtímabil reynt að berjast fyrir því að staða heimilanna væri bætt,“ sagði Eygló Harðardóttir félagsmálaráðherra.