Júlíus Petersen Guðjónsson
Júlíus Petersen Guðjónsson
Eftir Júlíus Petersen Guðjónsson: "Launamismunur í þessu landi er óþolandi."

Ágæti ellilífeyrisþegi TR. Mig langar að koma á framfæri við ykkur tölvupósti sem ég sendi nýlega Ásmundi Friðrikssyni, þingmanni, og öllum þingmönnum ríkisstjórnarinnar.

„Ágæti þingmaður, ég var að lesa um nýtt frumvarp sem mun hafa verið í smíðum í þrjú ár. Hvílík peningasóun, en mér skilst að skv. þessu frumvarpi sé ekki að vænta neinnar hækkunar, ekki krónu, fyrir 9.000 ellilífeyrisþega sem einungis fá bætur frá TR. Sem sagt eru ekki með lífeyrissjóðsaðild. Ég vil minna ykkur á fund sem sjálfstæðismenn héldu á Hellu skömmu fyrir síðustu kosningar en þar talaði ég um bágborin kjör ellilífeyrisþega. Eru mér mjög minnisstæð ummæli allra frambjóðenda á fundinum að þarna væri mál sem þurfti skjótra úrbóta við. Það vantaði ekki stóru orðin ykkar. En hverjar urðu efndirnar? Engar, ekki neitt!

Á fundi sem Ragnheiður Elín stóð fyrir á Selfossi spurði ellilífeyrisþegi hvenær vænta mætti bótaleiðréttingar. Svaraði Ragnheiður Elín að við því mætti búast á kjörtímabilinu. Ég svaraði að það væri óásættanlegt og að bætur ættu að koma strax. Því svaraði Ragnheiður Elín að hefði hún eitthvað með það að gera þá mundi hún beita sér fyrir því. Hún er ráðherra og hefur ekkert gert. Svona eru loforðin ykkar, ein svikamylla.

Landsfundurinn lofaði leiðréttingu, Bjarni Ben. lofaði líka, þið lofuðuð öllu fögru og þú ert sáttur við að ekki sé hægt að „efna öll kosninga loforð“ skv. umsögn þinni í umræddum tölvupósti.

Mig langar að minna þig á staðreynd úr síðustu kosningum. Skoðanakannanir rétt fyrir kosningar gáfu Sjálfstæðisflokki ca 22% fylgi og Framsókn 23%. En í þessum skoðanakönnunum voru 67 ára og eldri ekki með. Upp úr kjörkössunum fékk Sjálfstæðisflokkur um 27% og Framsókn 28%. Hverjir kusu ykkur, auðvitað eldri borgarar? Haldið þið að eldri borgarar láti blekkjast í næstu kosningum?

Til þess að fá atkvæði eldri borgara er ákaflega auðvelt að afla fylgis með því að setja inn ákvæði í ofangreint frumvarp til hækkunar til TR viðskiptavina með hækkun upp í kr. 320 þúsund, sem Hagstofan telur réttlát laun til þess að lifa mannsæmandi lífi og að þessi lög öðlist gildi strax fyrir kosningar. Það er staðreynd að ríkissjóður er vel aflögufær um að greiða þessa hækkun.

Ásmundur, ég skora á alla sjálfstæðismenn að standa við gefin loforð og koma þessu á fyrir kosningar. Með bestu kveðjum, Júlíus P. Guðjónsson, ellilífeyrisþegi, flokksbundinn sjálfstæðismaður frá því ég öðlaðist kosningarétt.“

Ég vil hvetja alla eldri borgara sem styðja Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflokkinn að kjósa þá ekki ef þeir koma ekki málum okkar í lag skv. ofangreindu frumvarpi. Fari svo þá hvet ég ykkur til þess að skila auðu, fara ekki á kjörstað eða kjósa aðra flokka.

Launamismunur í þessu landi er óþolandi. Gerið ykkur grein fyrir því að þingmenn og aðrir háttsettir embættismenn fara á eftirlaun með um kr. 600 þúsund og meira á mánuði.

Höfundur er ellilífeyrisþegi.