Gunnar Guðmundsson fæddist 10. september 1923. Hann lést 28. júlí 2016.

Útför hans fór fram 10. ágúst 2016.

Elsku afi Gunnar, ég á svo mikið af minningum sem er svo gott að rifja upp nú í sorginni.

Þegar við komum sem börn til ykkar ömmu á Háaleitisbrautina tókstu alltaf á móti okkur og byrjaðir á því að henda okkur upp í loft sem var svo gaman, þið amma fóruð alltaf með okkur í sund, niður á tjörn að gefa öndunum brauð og svo fengum við að fara með niður í Rafbúð og hjálpa til.

Ég var svo heppin að fá að búa hjá ykkur tvisvar sinnum á fullorðinsárunum og það var alltaf svo gaman að spjalla við þig á kvöldin. Nú síðastliðin ár kom ég reglulega til þín í heimsókn og klippti þig og rakaði. Það var svo gaman að vera hjá þér, þú varst svo mikill húmoristi og fékkst mig ávallt til að hlæja. Þú varst alltaf svo þakklátur fyrir það að ég kæmi til þín en ég er enn þakklátari fyrir að hafa átt þessar stundir með þér og á eftir að sakna þeirra mikið. það var líka svo gaman fyrir börnin mín að koma og hitta þig og þá sérstaklega fyrir Jóel þar sem þið áttuð fótboltann sem sameiginlegt áhugamál.

Það var ekki auðvelt að vera stödd á Spáni þegar þú skildir við en ég hugga mig við það að þú fékkst hvíldina sem þú þráðir og fyrir það að ég var búin að vera mikið hjá þér síðustu vikur. Nú hafið þið amma sameinast á ný og veit ég að hún hefur tekið vel á móti þér.

Hvíl í friði, elsku afi minn, og knúsaðu ömmu frá mér.

Þín

María Una.