Stærst MSC Splendida í höfn.
Stærst MSC Splendida í höfn. — Morgunblaðið/Styrmir Kári
Alls 5.500 til 6.000 manns koma til Reykjavíkur í dag sem farþegar tveggja stórra skemmtiferðaskipa sem leggja að Skarfabakka við Sundahöfn.

Alls 5.500 til 6.000 manns koma til Reykjavíkur í dag sem farþegar tveggja stórra skemmtiferðaskipa sem leggja að Skarfabakka við Sundahöfn. Árla dags kemur, í annað sinn á sumrinu, lystiskipið MSC Splendida, sem er um 138 þúsund brúttótonn og er það hið stærsta sem kemur til Reykjavíkur í ár. Skráðir farþegar þess nú eru 3.274 og um 1.000 manns í áhöfn. Með Koningsdam, sem er tæplega 100 þúsund tonna skip, eru 2.600 farþegar og 1.000 manns í áhöfn. Það skip kemur í Sundahöfn síðdegis og leggur svo aftur í haf um svipað leyti á morgun. Koningsdam er spánýtt skip, það var sjósett og fór í sína jómfrúarferð í apríl síðastliðnum.

„Þar sem Koningsdam er að koma í fyrsta sinn til Reykjavíkur verður, hefð samkvæmt, skipstjóra afhentur viðurkenningarskjöldur frá okkur, til minningar um þessa ferð,“ sagði Erna Kristjánsdóttir, markaðs- og kynningarstjóri Faxaflóahafna.

Alls koma 113 skemmtiferðaskip til Reykjavíkur í ár og hafa aldrei verið fleiri. Samanlagður farþegafjöldi þeirra verður 109 þúsund manns. Enn fleiri skip og farþegar koma á næsta ári en þá hafa 119 skipakomur verið boðaðar og með þeim verða alls um 125 þúsund farþegar samanlagt. sbs@mbl.is