Reynir Smári Atlason er fæddur 1985. Hann lauk BA-prófi í iðnhönnun frá Curtin University of Technology í Vestur-Ástralíu árið 2010. Tveimur árum síðar, 2012, lauk hann M.Sc.
Reynir Smári Atlason er fæddur 1985. Hann lauk BA-prófi í iðnhönnun frá Curtin University of Technology í Vestur-Ástralíu árið 2010. Tveimur árum síðar, 2012, lauk hann M.Sc.-prófi í umhverfis- og auðlindafræði frá Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild Háskóla Íslands. Hann starfar nú sem lektor við Syddansk Universitet í Danmörku og býr í Óðinsvéum ásamt unnustu sinni, Önnu Bryndísi Einarsdóttur lækni.

• Reynir Smári Atlason hefur varið doktorsritgerð sína í umhverfis- og auðlindafræði við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild Háskóla Íslands. Ritgerðin ber heitið: Skipulegar umbætur viðhaldsstjórnunar. Dæmi úr íslenskum jarðvarmaiðnaði (Theorizing for maintenance management improvements: using case studies from the Icelandic geothermal sector).

Leiðbeinendur voru dr. Rúnar Unnþórsson, prófessor, og dr. Guðmundur Valur Oddsson, lektor, báðir við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild Háskóla Íslands.

Aukin notkun endurnýjanlegra orkugjafa kallar á sérfræðiþekkingu til að viðhalda innviðum slíkra kerfa, en slík þekking er gjarnan útveguð af fjarlægum eða erlendum sérfræðingum. Fyrri rannsóknir hafa sýnt jákvæð áhrif uppbyggingar sérfræðiþekkingar í nærumhverfi viðkomandi iðnaðar. Slík uppbygging getur leitt til klasamyndunar í kringum þann iðnað sem við á og mögulegan vöxt sérfræðiþekkingar á heimsvísu. Slík þróun leiðir af sér hraðari vöxt á nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa þegar fleiri aðilar koma að hönnun og þróun nýrra lausna.

Í þessari rannsókn var þróun viðhalds í hinum íslenska jarðvarmageira skoðuð og kortlögð svo hægt sé að draga lærdóm af reynslu innan íslenska jarðvarmageirans. Tilviksrannsóknir voru framkvæmdar er sneru að ýmsum flötum rekstri og viðhaldi jarðvarmavera. Orsakasamband var greint og kortlagt innan og þvert á tilviksrannsóknir. Huglægt kvikt kerfislíkan, byggt á tilviksrannsóknum, var kynnt. Líkanið gefur til kynna ýmsa þætti er stuðla að myndun iðnaðarklasa innan endurnýjanlega orkugeirans. Fyrri reynsla starfsfólks, fjárhagslegur ávinningur og ófyrirséðir truflandi atburðir ásamt fleiri þáttum virðast hafa áhrif á myndun iðnaðarklasa. Huglægt kvikt kerfislíkan, byggt á hinum íslenska jarðvarmaiðnaði, getur mögulega nýst iðnaði er leitast við að færa viðhald í nærumhverfi, auka nýsköpun og stuðla að myndun iðnaðarklasa.