Rithöfundurinn Halldór Armand.
Rithöfundurinn Halldór Armand.
Satt best að segja ætla ég að gera það sama og aðra laugardaga, það er að lesa og skrifa og teyga svart kaffi.

Satt best að segja ætla ég að gera það sama og aðra laugardaga, það er að lesa og skrifa og teyga svart kaffi. Það eru ástríður mínar og tilvalið að sinna þeim á afmælisdaginn,“ segir Halldór Armand Ásgeirsson rithöfundur, sem á 30 ára afmæli í dag.

„Ég verð síðan með fjölskyldumatarboð um kvöldið. Ég var í Bandaríkjunum í mánuð í sumar og við gætum kallað þá dvöl himneskan afmælisfögnuð. Annars finnst mér sérkennilega mikið gert úr aldri fólks almennt og yfirleitt. Aldur á bara að vera mælingatæki fyrir hagstofur. Hann hefur enga innri þýðingu en hefur því miður allt of sterk áhrif á sjálfsmynd fólks.“

Þessa dagana leggur Halldór lokahönd á handrit að nýrri bók, en hann hefur sent frá sér tvær bækur til þessa. Sú fyrri innihélt tvær nóvellur og nefnist Vince Vaughn í skýjunum, en sú síðari er skáldsagan Drón sem kom út árið 2014.

Halldór var að byrja með vikulega pistla í menningarþættinum Lestinni sem hóf göngu sína á Rás 1 í síðustu viku. „Ég geri ráð fyrir að þeir verði alltaf smitaðir af einhverri viðvaningslegri heimspeki og fjalli í grófum dráttum um mannlegt hlutskipti. Það kemur í ljós, ég plana þá ekki fyrir fram. Ég er í þjónustu textans, hann ekki í minni.“

Halldór er menntaður lögfræðingur frá HÍ en hefur að mestu unnið við ritstörf undanfarin ár. „Ég trúi ekki á það að skipuleggja líf sitt um of. Þá endar maður sem túristi í eigin lífi. Líf mitt er einfalt. Ég les. Ég skrifa. Læt exístensíalistann hann frænda minn koma mér til að hlæja. Borða súkkulaðirúsínur undir birtu náttlampans. Stend upp og sparka í knött eða kasta honum ofan í körfu. Fága musterið í ofurlýstum tækjasal og treysti æðri máttarvöldum til að leiða mig í átt til sannleikans.“

Foreldrar Halldórs eru Ásgeir Sverrisson, sérfræðingur hjá ríkislögreglustjóra og fyrrverandi blaðamaður, og Guðrún Hulda Guðmundsdóttir, kennari í Austurbæjarskóla. Nafnið Armand er franskt að uppruna, en ein langamma Halldórs var frönsk. „Nafnið á ættir að rekja til franskra húgenotta og það var alltaf sterkur vilji innan fjölskyldunnar til að halda því á lífi.“