Orka Svandís Björg Björgvinsdóttir og Jóna Björk Hjálmarsdóttir kynntust í starfi Ljóssins fyrir nýgreindar konur.
Orka Svandís Björg Björgvinsdóttir og Jóna Björk Hjálmarsdóttir kynntust í starfi Ljóssins fyrir nýgreindar konur. — Morgunblaðið/Eggert
Skúli Halldórsson sh@mbl.is „Ljósið hefur reynst okkur ómetanlegt.

Skúli Halldórsson

sh@mbl.is

„Ljósið hefur reynst okkur ómetanlegt. Ég hefði ekki getað ímyndað mér hversu dýrmæt þessi þjónusta væri áður en ég þurfti á henni að halda,“ segir Jóna Björk Hjálmarsdóttir, en hún og Svandís Björg Björgvinsdóttir stefna á að hlaupa tíu kílómetra í Reykjavíkurmaraþoninu í dag, til styrktar Ljósinu, endurhæfingu fyrir krabbameinsgreinda.

Vinkonurnar tvær eru nú á batavegi eftir að hafa gengist undir meðferð við krabbameini, en þær kynntust síðasta haust í starfi Ljóssins fyrir nýgreindar yngri konur.

„Náðum ekkert að tengja“

„Þar myndaðist virkilega góður hópur sem hefur haldist síðan, svona tíu til tólf ungar konur. Reyndar föttuðum við Svandís síðar að við höfðum unnið á sama vinnustað. Við könnuðumst alltaf við andlitin en vorum auðvitað báðar sköllóttar og náðum ekkert að tengja neitt,“ segir Jóna og hlær við.

Vel hefur gengið að æfa fyrir hlaupið í sumar að sögn Svandísar.

„Ljósið byrjaði með hlaupahóp í maí og við höfum hlaupið í allt sumar með honum. Við erum þar nokkrar sem vorum í krabbameinsmeðferð á síðasta ári, höldum hópinn og hvetjum hver aðra áfram,“ segir Svandís, sem var virkur hlaupari áður en hún greindist með meinið.

„Núna er ég að reyna að byggja upp orkuna á ný og endurheimta styrk, til að geta komið mér aftur í mitt fyrra form. Hreyfing er eiginlega langbesta leiðin til að komast aftur á fyrri stað hvað orkuna varðar.“

Aðspurð segist Svandís ekki stefna á neinn sérstakan tíma.

„Ég stefni bara að því að klára þetta, hafa gaman og njóta dagsins, og svo knúsa alla sem ég þekki á leiðinni. Ekki að hugsa um neina tíma,“ segir hún glöð í bragði.

Snýst um að gefa til baka

Samtals hafa þær safnað vel á þriðja hundrað þúsund krónum.

„Við æstumst allar upp í vikunni þegar Íslandsbanki sendi póst um einhverja gullmedalíulímmiða fyrir þá sem safna meira en hundrað þúsundum. Þá fór allt af stað aftur,“ segir Jóna en bætir við að á endanum snúist þetta um að reyna að gefa eins mikið til baka og maður getur.

„Margt smátt gerir eitt stórt.“