Verklegt Jarðvegsframkvæmdir eru mannaflsfrekar, arðbærar og fljótar að smita út frá sér og skapa umsvif í öðrum greinum.
Verklegt Jarðvegsframkvæmdir eru mannaflsfrekar, arðbærar og fljótar að smita út frá sér og skapa umsvif í öðrum greinum. — Morgunblaðið/Ómar Óskarsson
Á öðrum fjórðungi líðandi árs, það er tímabilinu apríl-júní, voru 199.300 manns á aldrinum 16–74 ára á vinnumarkaði. Af þeim voru 192.100 starfandi og 7.200 án vinnu og í atvinnuleit.

Á öðrum fjórðungi líðandi árs, það er tímabilinu apríl-júní, voru 199.300 manns á aldrinum 16–74 ára á vinnumarkaði. Af þeim voru 192.100 starfandi og 7.200 án vinnu og í atvinnuleit. Atvinnuþátttaka mældist 85%, hlutfall starfandi mældist 81,9% og atvinnuleysi var 3,6%. Þetta kemur fram í tölum frá Hagstofunni. Frá sama tímabili fyrir ári fjölgaði starfandi fólki um 5.600 og hlutfallið jókst um 1,8%. Atvinnulausum fækkaði á sama tíma um 2.600 manns og hlutfallið lækkaði um 1,4%. Atvinnulausar konur voru 3.800 og var atvinnuleysi á meðal kvenna 4,1%. Atvinnulausir karlar voru 3.400 eða 3,2%. Atvinnuleysi var 4,3% á höfuðborgarsvæðinu en 2,4% utan þess.

Á öðrum ársfjórðungi 2016 höfðu 800 manns verið atvinnulausir í 12 mánuði eða lengur samanborið við 900 manns á öðrum ársfjórðungi 2015. Langtímaatvinnuleysi, sem hlutfall af heildarfjölda atvinnulausra var 11% samanborið við 9% á sama tíma fyrir ári, segir í tölum Hagstofunnar.

Almennt eru tölur þessar mjög jákvæðar og vitna um góðan gang í efnahagslífinu. Í mörgum atvinnugreinum er mikil þörf fyrir fólk til starfa, til dæmis í verktakastarfsemi og byggingariðnaði. Þá þarf fólk víða til starfa í ferðaþjónustunni, sem nú er orðin atvinnugrein sem nær til alls ársins en var áður fyrst og síðast sumarstarf.

sbs@mbl.is