Lilja Alfreðsdóttir
Lilja Alfreðsdóttir
Elín Margrét Böðvarsdóttir elinm@mbl.is Afar brýnt er að Ísland bæði taki þátt og fylgist grannt með gangi mála vegna fyrirhugaðrar útgöngu Breta úr Evrópusambandinu.

Elín Margrét Böðvarsdóttir

elinm@mbl.is

Afar brýnt er að Ísland bæði taki þátt og fylgist grannt með gangi mála vegna fyrirhugaðrar útgöngu Breta úr Evrópusambandinu. Þetta kom fram í máli Lilju Alfreðsdóttur utanríkisráðherra á blaðamannafundi í utanríkisráðuneytinu í gær. Ríkisstjórnin ákvað í gærmorgun að stofnuð yrði ráðherranefnd vegna Brexit sem hefur yfirumsjón með undirbúningi að framtíðarsamskiptum Íslands og Bretlands.Þá verður stofnuð sérstök Brexit-eining sem heyra mun undir utanríkisráðuneytið og mun Gunnar Snorri Gunnarsson sendiherra fara fyrir einingunni. Hún mun halda utan um samskipti Íslands við erlend ríki og hagaðila innanlands. „Þó að Bretland sé mesta og mikilvægasta viðskiptaland okkar, þá vill svo til að við erum ekki mikilvægasta viðskiptaland Bretlands,“ sagði Gunnar Snorri á fundinum.

Klókindi mikilvæg

Þannig sé Ísland ekki eins ofarlega í forgangsröðinni hjá Bretum eins og Bretar eru hjá Íslendingum. „Þess vegna verðum við að finna allar leiðir til að vera eins málefnaleg og hægt er,“ segir Gunnar, og telur að Íslendingar þurfi jafnframt að vera klókir og reyna að sýna fram á að samstarf verði Bretum einnig til hagsbóta.

Skiptar skoðanir eru innan Evrópusambandsins og segir Gunnar líklegt að Bretar mæti þar einhverri fyrirstöðu í samningaviðræðum. „Við aftur á móti, við höfum enga þörf að refsa Bretum fyrir eitt né neitt. Við bara viljum að samskipti séu eins greið og góð og hægt er,“ segir Gunnar.

Bretar hafa ekki gefið það til kynna með formlegum hætti hvort þeir hafi áhuga á að ganga í EFTA en Ísland gegnir nú þar forystu. „Þeir eru bara eins og við, þeir eru að passa upp á að viðskiptalegir hagsmunir raskist ekki og ég held að það sé þeirra markmið,“ segir Lilja en segir þó frekar óljóst hvert Bretar stefna.