Engin undanþága Í ákvörðun nr. 19/2016 reyndi á hvort sérákvæði búvörulaga veittu MS undanþágu frá banni samkeppnislaga.
Engin undanþága Í ákvörðun nr. 19/2016 reyndi á hvort sérákvæði búvörulaga veittu MS undanþágu frá banni samkeppnislaga. — Morgunblaðið/Kristinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Jóhannes Tómasson johannes@mbl.is Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, tekur fyrir að reginmunur sé á túlkun á samspili samkeppnislaga og sérlaga í annars vegar ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr.

Jóhannes Tómasson

johannes@mbl.is

Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, tekur fyrir að reginmunur sé á túlkun á samspili samkeppnislaga og sérlaga í annars vegar ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 19/2016 um samspil samkeppnislaga og búvörulaga og hins vegar í ákvörðun forvera þess, Samkeppnisráðs, nr. 1/2005 sem varðaði erindi Rannsóknarstofunnar í Mjódd vegna samnings Heilsugæslunnar í Reykjavík og Rannsóknarstofnunar Landspítala-háskólasjúkrahúss um rannsóknarþjónustu.

Heimir Örn Herbertsson hæstaréttarlögmaður ritaði grein sem birt var í Viðskiptamogganum í fyrradag. Þar gerir hann grein fyrir ofangreindum ákvörðunum Samkeppniseftirlitsins og telur reginmun vera á forsendum og nálgun eftirlitsins við skýringu á samspili samkeppnislaga og sérlaga í niðurstöðum Samkeppniseftirlitsins í málunum tveimur.

Almenn regla að sérlög ganga framar almennum lögum

Það er almenn regla við lögskýringu að telja sérlög ganga framar almennum lögum, til dæmis samkeppnislögum. Þá er átt við að almenn lög víki ef þau rekist á við sérlög um tiltekið efni. Í ofangreindri niðurstöðu Samkeppnisráðs frá árinu 2005 gengu sérlög framar ákvæðum samkeppnislaga, þrátt fyrir að í lögskýringargögnum með sérlögunum komi fram að ákvæðið komi ekki í veg fyrir beitingu samkeppnislaga.

Hins vegar var niðurstaða eftirlitsins í ákvörðun nr. 19/2016 að sérlagaákvæði búvörulaga væri ekki nógu skýrt og ótvírætt til að ganga framar samkeppnislögum.

„Í heilsugæslumálinu frá 2005 var ágreiningur um þá ráðstöfun heilbrigðisyfirvalda að hætta að kaupa tiltekna rannsóknarþjónustu af einkaaðilanum og fela Landspítalanum að annast hana. Að mati samkeppnisráðs fól tiltekið ákvæði laga um heilbrigðisþjónustu í sér sérákvæði sem gengi framar samkeppnislögum. Af þessu leiddi að það væri á valdsviði heilbrigðisyfirvalda að ákvarða hvort eða í hve miklum mæli þau keyptu tiltekna rannsóknarþjónustu af einkaaðilum,“ segir Páll Gunnar í svari sínu við grein Heimis. Síðan reifar hann aðra niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins í máli sem hann telur líkt ákvörðun nr. 19/2016, en þær taka báðar á samspili samkeppnislaga og búvörulaga.

„Árið 2006 komst Samkeppniseftirlitið að þeirri niðurstöðu að forveri MS, Osta- og smjörsalan, hefði beitt Mjólku samkeppnishamlandi mismunun. Hvorki Samkeppniseftirlitið né áfrýjunarnefnd samkeppnismála féllust á það í málinu að sérákvæði búvörulaga hefðu veitt undanþágu frá banni samkeppnislaga við misnotkun á markaðsráðandi stöðu,“ segir Páll.

Páll Gunnar segir að það ráðist af viðkomandi sérlögum og atvikum hverju sinni hvort og hvernig samkeppnislög eigi við. „Í MS-málinu, nr. 19/2016, rökstuddi Samkeppniseftirlitið með ítarlegum hætti að bann samkeppnislaga við misnotkun á markaðsráðandi stöðu hefði tekið til aðgerða MS. Sá rökstuðningur byggir á hefðbundnum lögskýringarsjónarmiðum. Á þennan rökstuðning reynir nú fyrir áfrýjunarnefnd samkeppnismála.“