Jens Garðar Helgason
Jens Garðar Helgason
Eftir Jens Garðar Helgason: "Íslenska ríkið er önnur stærsta útgerð landsins og fer með um 30 þúsund þorskígildi til byggðastyrkjandi aðgerða."

Það er ögn sérstakt fyrir mig, sem alið hef manninn mestalla mína tíð á Eskifirði, að hlusta á margan sjálfskipaðan sérfræðinginn tjá sig af mikill dýpt og reynslu um stöðu landsbyggðarinnar og ekki síst þeirra byggðarlaga sem lifa á sjávarútvegi. Af orðum þeirra að dæma mætti halda að þeir hefðu ekki komið út á land síðan á sjöunda eða áttunda áratugnum – þegar hvert og eitt byggðarlag var einangrað atvinnusvæði og samgöngur milli staða voru á gömlum malarvegum og hvert og eitt þorp var sjálfu sér nógt. Farið var til Reykjavíkur einu sinni til tvisvar á ári og frí í útlöndum eða borgarferðir erlendis heyrðu til tíðinda í þorpinu. En þetta var þá og síðan hafa liðið mörg ár og áratugir – og árið er líka 2016 úti á landi.

Landsbyggðin hefur tekið stakkaskiptum undanfarna áratugi. Þótt alltaf megi gera betur þá eru samgöngur í flestum tilfellum með besta móti og sér fyrir endann á flöskuhálsum eins og leiðinni á milli norður- og suðurhluta Vestfjarða o.s.frv. Í dag er t.d. Mið-Austurland eitt atvinnusvæði. Til vinnu á Reyðarfirði ferðast fólk á hverjum degi frá Seyðisfirði, Breiðdal, Egilsstöðum og Neskaupstað – alveg eins og fólk frá Hveragerði, Þorlákshöfn og Keflavík sækir vinnu á höfuðborgarsvæðið og öfugt eins og t.d. starfsmenn flugfélaga og flugstöðvar Leifs Eiríkssonar sem flestir búa á höfuðborgarsvæðinu. Þingeyjarsýslur og Akureyri eru eitt atvinnusvæði, Akureyri og sveitarfélögin út með Eyjafirði eru eitt atvinnusvæði og sunnanverðir Vestfirðir eru eitt atvinnusvæði.

Í upphafi kvótakerfisins fengu sveitarfélög og ríki 56% af kvótanum – enda mjög margar bæjarútgerðir um allt land á þeim tíma. Mörg sveitarfélög brugðu á það ráð að selja frá sér aflaheimildir til að malbika götur eða byggja skóla og jafnvel var selt til að kaupa bréf í DeCode og netfyrirtækjum eins og hreinn meirihluti Alþýðubandalagsins gerði á Raufarhöfn og afleiðingarnar þekktar.

Þar sem í dag er frjáls markaður með aflaheimildir hafa þær gengið kaupum og sölum og upp hafa byggst öflug og traust sjávarútvegsfyrirtæki sem eru burðarásar sinna atvinnusvæða. Tökum dæmi. Þegar fiskvinnsla lagðist af á Flateyri fóru aflaheimildirnar yfir í Hnífsdal og Bolungarvík, þ.e.a.s. sama atvinnusvæði. HB Grandi keypti Tanga hf. á Vopnafirði, sem var í eigu sveitarfélagsins. Í dag hefur HB Grandi fjárfest fyrir milljarða í nýrri fiskimjölsverksmiðju og uppsjávarfrystihúsi. Vegna lokunar á Rússlandsmarkað hefur HB Grandi ákveðið að byggja upp hátækni-bolfiskvinnslu til að styrkja atvinnuöryggið á staðnum. Ísfélag Vestmannaeyja keypti Hraðfrystistöð Þórshafnar og hefur fjárfest og styrkt stoðir samfélagsins á Þórshöfn svo um munar. Í dag er skortur á íbúðarhúsnæði á Þórshöfn. Síldarvinnslan keypti Gullver á Seyðisfirði og vinnslan í frystihúsinu fór úr 2-3 dögum á viku í fulla vinnuviku með auknu hráefni. Samherji hefur byggt upp öflug hátækni-fiskvinnsluhús á Dalvík og á Akureyri. Með þessum hætti er hægt að fara um allt land með sambærileg dæmi.

Þóroddur Bjarnason, prófessor í Háskólanum á Akureyri og fyrrverandi stjórnarformaður Byggðastofnunar, hefur bent á að hinar svokölluðu brothættu sjávarbyggðir séu um 10-12 talsins og þar séu innan við 1% þjóðarinnar. Íslenska ríkið er önnur stærsta útgerð landsins og fer með um 30 þúsund þorskígildi til byggðastyrkjandi aðgerða. Ef greining Þórodds er rétt, sem ég dreg ekki í efa, þá ætti það að vera hægur vandi fyrir núverandi og verðandi stjórnmálamenn að nýta þau 30 þúsund tonn sem þeir hafa til umráða til að styrkja viðkomandi byggðir.

Umræðan um íbúaþróun á landsbyggðinni á ekki að vera svört og hvít. Margir ólíkir þættir hafa orðið til þess að sum svæði hafa þurft að þola fólksfækkun og er það í besta falli grunnhyggni að ætla að kenna fiskveiðistjórnunarkerfinu um það. Opinber þjónusta, afþreying, möguleikar til menntunar, fjölbreytni í atvinnu, skilyrði og fjölbreytni í íþrótta- og tómstundaiðkun fyrir börn og unglinga, verslun og þjónusta, nálægð við innanlandsflug og aðra byggðakjarna eru áhrifaþættir sem hafa miklu meira um það að segja hvort ungt fólk kýs sér búsetu á einum stað eða öðrum.

Þó svo að ég hafi alltaf verið veikur fyrir „eighties“-tónlist þá er ég ekki alveg jafn svag fyrir því að hafa umræðuna um landsbyggðina eins og úti á landi séu ennþá einangraðar byggðir með malarvegi og heiðarbýli.

Höfundur er formaður Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.